„Fúll á móti“ – fylgiseðillinn er rusl!

„Svefnpillurnar virkuðu ekki en fylgiseðillinn svæfði mig undireins!“

Ætli við höfum ekki öll heyrt einhvern bölsótast yfir fylgiseðlinum sem þvælist fyrir þegar lyfjapakkning er opnuð og er strax hent ólesnum. Að ekki sé nú minnst á að ef við fengum t.d. þrjár pakkningar af lyfinu þá er sami fylgiseðillinn í þeim öllum og þetta sé sóun.

En hvað er hér á ferðinni? Búum við ekki í upplýsingasamfélagi þar sem allir vilja eða eiga að afla sér sem bestra upplýsinga um lyfin sín? Í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins hafa yfirvöld komist að þeirri niðurstöðu að notendur lyfja eigi rétt á því að fá fylgiseðil með lyfjunum sínum og lyfjafyrirtækinu beri skyldu til að setja slíka fylgiseðla í pakkningar lyfjanna. Ekki er einungis um að ræða einhvern fylgiseðil heldur fylgiseðil sem yfirvöld viðkomandi ríkis hefur samþykkt og er á opinberri þjóðtungu landsins. Fylgiseðillinn á að vera í hverri pakkningu lyfs, þó ekki væri nema fyrir það að fyrirfram veit enginn hvort sá sem fær pakkninguna fær eina eða fleiri. Og ekki sakar að lesa að nýju yfir fylgiseðilinn þegar lyfið í fyrstu pakkningunni er búið og komið að þeirri næstu.

Vissulega mætti sjá fyrir sér að fylgiseðlarnir væru einungis birtir á Netinu en svo langt erum við ekki enn komin, þótt framtíðin hljóti að vera sú að fylgiseðlar færist af pappír yfir á Netið. En vel að merkja þá eru allir íslenskir fylgiseðlar markaðssettra lyfja birtir á www.serlyfjaskra.is og aðgengilegir þar. Slíkri samhliða birting fylgir töluvert hagræði, t.d. í þeim tilfellum sem notandi glatar fylgiseðli fyrir slysni. Ofan á þetta bætist að með slíkri birtingu fylgiseðla á Netin gefst tækifæri á því að stækka fylgiseðlana á skjá þess tækis sem notað er og gera þá læsilegri þeim farin er að daprast sjón.

Í fylgiseðlinum eru upplýsingar um við hverju lyfið sem við fengum er notað (sjá 1. kafla fylgiseðils). Nú er það svo að öllum geta orðið á mistök enda mannlegt að gera mistök. Sem dæmi má nefna að læknir getur ávísað röngu lyfi eða lyfjafræðingur afgreitt rangt lyf. Ávallt skal því lesa fylgiseðilinn áður en við notkun lyfs hefst. Hafi t.d. læknirinn sagt okkur að við þurfum á fá sýklalyf en heim komin lesum við í fylgiseðli lyfsins sem við sóttum í apótek að það sé svefnlyf, þá er óráðlegt að nota lyfið heldur leita skýringa hjá lyfjafræðingnum eða lækninum.

Í fylgiseðlinum eru líka upplýsingar um það hvenær ekki má nota lyfið (sjá 2. kafla fylgiseðilsins). Kannski á eitthvað slíkt við um okkur en við gleymdum hreinlega að láta lækninn vita af því þegar hann ávísaði lyfinu og hann spurði okkur ekki. Sem dæmi má nefna hvort við notum ákveðin lyf sem ekki má nota samhliða lyfinu sem læknirinn ávísaði núna eða hvort við séum með ofnæmi fyrir einhverju innihaldsefni lyfsins.

Í fylgiseðlinum eru líka upplýsingar um hvort lyfið getur haft sljóvgandi áhrif og þar með að við verðum að vera sérlega á varðbergi gagnvart þessu og meta hvort við erum t.d. hæf til þess að keyra bíl eftir notkun lyfsins (sjá 2. kafla fylgiseðilsins).

Margt annað kemur fram í fylgiseðlinum, m.a. um mögulegar aukaverkanir lyfsins (sjá 4. kafla fylgiseðilsins) , en það er efni í annan pistil.

Ekki verður nógsamlega áréttað hve mikilvægt það er að notendur lyfja lesi fylgiseðilinn áður en notkun lyfsins hefst og leiti sér frekari upplýsinga eða skýringa, t.d. í apótekum, ef þörf krefur.


Var efnið hjálplegt? Nei