Það borgar sig að lesa fylgiseðilinn annars….!

Sum lyf geta dregið úr eða aukið virkni annarra lyfja þegar þau eru tekin samtímis.

Það borgar sig að lesa fylgiseðilinn annars….!

 

Helga vinkona mín, sem reyndar heitir ekkert Helga, er stundum svolítið kærulaus – fyrirgefðu Helga, þú ert samt frábær! Það var því eiginlega alveg henni líkt að lenda í þessu sem ég ætla að segja ykkur frá. Það var á haustmánuðum fyrir nokkrum árum þegar skólarnir voru að byrja og haustflensan var að ganga að tvennt gerðist í lífi Helgu. Hún fékk mjög slæma hálsbólgu og hún flutti inn með kærastanum sínum. Hálsbólgan var hræðileg en kærastinn æðislegur.

Helga mín er hörkutól en þegar hún var bæði búin að missa röddina og var hætt að geta kysst kærastann sinn ákvað hún að ráð væri að leita sér læknishjálpar. Það reyndist þrautin þyngri að fá tíma hjá heimilislækninum og líðanin þannig að hún ákvað að fara á læknavaktina sem var opin eftir almennan afgreiðslutíma. Hún komst að hjá lækninum kl. 17:30 og eftir að hafa borið erindið upp við hann skrifar hann upp á sýklalyf fyrir hana og fyrirskipar að hún skuli klára kúrinn sem var tíu dagar í þessu tilfelli. Helgu var ekki sérlega vel við að taka sýklalyfin en ákvað þó að það væri skynsamlegast að fara að fyrirmælum læknisins, enda leið henni alveg skelfilega illa og fátt annað í stöðunni en að taka lyfin.

Sambúðin með kærastanum gekk vel og hann stjanaði við hana og var ekki óduglegur við að láta henni líða betur með því að færa henni te í rúmið, snýtuklúta og sitthvað fleira í þeim dúr. Hann var sem sagt alveg sérstaklega ómótstæðilegur svona þegar hún gat ekki kysst hann.

Dagarnir liðu og hálsbólgan skánaði smátt og smátt, þökk sé sýklalyfjunum og hjálpsama kærastanum. Það var á degi 7 af 10 á sýklalyfjakúrnum þegar Helga var komin á ról og farin að kyssa kærastann á ný að hún ákvað að það væri kannski ráðlegt að glugga í þennan fylgiseðil sem fylgdi sýklalyfjunum. Hann var meira að segja á íslensku, Helgu til mikillar gleði.

Það var þá sem Helga rak augun í setningu sem hún kemur aldrei til með að gleyma og var eitthvað á þessa leið, ef Helga man rétt:

„Getur dregið úr virkni getnaðarvarnarlyfja“

Helgu batnaði af hálsbólgunni og vikurnar liðu ein af annarri og Helga komst að raun um að inntaka sýklalyfja getur svo sannarlega dregið úr virkni getnaðarvarnalyfja. Því nákvæmlega níu mánuðum eftir að Helga hafði flutt inn með kærastanum og fengið hálsbólguna fæddist þeim hjónaleysum lítið stúlkubarn.  Hvort sýklalyfið átti hlut að máli hefur ekki verið staðfest. Helga er hins vegar ekki í vafa um að hún mundi eftir því að nota pilluna á hverjum degi og hún er líka viss um að hún á sýklalyfinu mikið að þakka.

Í dag býr Helga með kærastanum, sem nú er orðinn unnusti, og börnum þeirra tveimur. Helga veit nú að það er mikilvægt að lesa fylgiseðilinn og hún gerir það alltaf hér eftir.

Lærdómurinn sem draga má af þessari frásögn er tvíþættur: Það jafnast fátt á við að eiga góðan kærasta þegar maður er veikur og það borgar sig að lesa fylgiseðilinn!

Var efnið hjálplegt? Nei