Hvernig á að geyma lyf og hvernig á að farga þeim?

Mörg lyf eru viðkvæm fyrir ljósi, raka og hita eða hitasveiflum. Í fylgiseðlum lyfja eru upplýsingar um hvernig geyma skuli lyf. Upplýsingar um rétt geymsluskilyrði finnast í 5. kafla fylgiseðilsins.

Hvernig á að geyma lyf og hvernig á að farga þeim?

 

Mikilvægt er að geyma lyf við rétt skilyrði og best er að geyma þau í upprunalegum umbúðum. Gott getur verið að notast við skammtaöskjur, t.d. til viku í senn, en gæta verður þess að lyfin þoli slíkt. Upplýsingar um geymsluþol lyfja utan upprunalegra umbúða eru gjarnan í fylgiseðlum lyfja en einnig er hægt að leita upplýsinga hjá lyfjafræðingi í apóteki.

Gæði lyfja geta minnkað verulega ef þau eru geymd við röng skilyrði, t.d. ef þau frjósa eða lenda í of miklum hita eða raka. Ekki er víst að neitt sjáist á lyfjunum þótt þau hafi frosið í einhvern tíma, t.d. aftast í kæliskápnum, eða þau hafi tímabundið verið í of miklum hita eða raka, kannski í gluggakistu óvarin gegn geislum sólar eða fyrir ofan ofn. Baðherbergisskápur er e.t.v. ekki besti geymslustaðurinn því í baðherbergi getur orðið mjög rakt. Sama má segja um bílinn þar sem hitasveiflur geta verið miklar.

Það er gagnslaust og getur reynst skaðlegt að nota lyf sem hafa misst verkun sína að miklu eða öllu leyti.

Ekki er síður mikilvægt að geyma lyf þar sem börn eða gæludýr komast ekki í þau. Hafa ætti í huga að pakkningar sumra lyfja, t.d. lyfja sem fást án lyfseðils, kunna að vekja forvitni og áhuga barna. Pakkningarnar minna kannski á sælgæti og sum lyf eru bragðgóð og innihalda efni sem geta verið hættuleg börnum.

Þegar farga skal lyfjum, t.d. vegna þess að fyrningartíminn er liðinn eða vegna þess að sjúklingur er hættur að nota þau, er best að fara með lyfin í næstu lyfjabúð.  Þar er tekið við þeim til förgunar.  Forðast ber að skola þeim niður í salerni eða fleygja þeim í ruslið, slíkt getur skapað hættu fyrir annað fólk og umhverfið.

 

Geymum lyfin okkar á réttum stað við rétt skilyrði.

Var efnið hjálplegt? Nei