Lesum líka fylgiseðil dýralyfja

Ef ég hefði lesið fylgiseðilinn áður en ég gaf dropana hefði ég áttað mig á hvernig ætti að undirbúa dýrið fyrir lyfjagjöfina.

Lesum líka fylgiseðil dýralyfja

 

Um daginn tók ég eftir því að litli loðni sonur minn klóraði sér óeðlilega mikið í öðru eyranu. Verandi ábyrgur forráðamaður hundsins pantaði ég tíma hjá dýralækninum. Eins og aðrir litlir sjúklingar fékk Garpur minn verðlaun fyrir að sitja kyrr á skoðunarborðinu á meðan læknirinn kíkti í eyrað og kvað upp úrskurð sinn: „greyið er komið með eyrnabólgu!“ Ég var leyst út með eyrnadropum fyrir litla skinnið og leiðbeiningum frá dýralækni um skammtastærðir og meðhöndlun. „Þetta verður ekki mikið mál“ hugsaði ég, enda vön manneskja, hundaeigandi til margra ára.

Hálfilla gekk að koma dropunum í eyrun á hundinum sem, þrátt fyrir óvenjumiklar gáfur, sat ekki grafkyrr heldur þvert á móti. Við lok viðureignarinnar voru eyrnadropar á flestum öðrum stöðum heldur en í eyranu á hundinum.

Rek ég þá augun í fylgiseðilinn:

  • Mælt er með að hreinsa og þerra ytri hlustina með hreinni bómull eða einhverju ámóta…ehemm, ég HELD að hann hafi verið með alveg hreina hlust en…?
  • HRISTIÐ flöskuna fyrir notkun…úpps, já mögulega gleymdi ég því sko.
  • Varist að lyfið berist á húð. Ef lyfið berst fyrir slysni á húð á að skola það af með miklu vatni...já, smurði ég mér þessa brauðsneið án þess að þvo mér hendurnar á undan?

 

Ef ég hefði lesið fylgiseðilinn ÁÐUR en ég gaf dropana hefði ég áttað mig á hvernig ætti aðundirbúa dýrið fyrir lyfjagjöfina, hvernig meðhöndla eigi lyfið fyrir lyfjagjöfina, leiðbeiningar umhvernig gefa eigi lyfið og hvort mönnum stafi einhver hætta af lyfinu.

Næsta skref er að kenna Garpi að lesa, hann myndi sennilega standa sig betur en ég í lestri fylgiseðla.

Og meðan ég man, eyrnabólgan er horfin á braut.


Var efnið hjálplegt? Nei