Fréttir


Fréttir

Ný lyf á markað 1.maí 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1.maí 2019.

16.5.2019

Ný lyf á markað 1.maí 2019

Lyf fyrir menn

Aspendos, töflur. Hver tafla inniheldur 100 mg af modafinili. Lyfið inniheldur mjólkursykur (laktósa einhýdrat). Sjúklingar með arfgengt galaktósaóþol, algjöran laktasaskort eða glúkósa-galaktósa vanfrásog, sem er mjög sjaldgæft, skulu ekki nota lyfið. Aspendos er ætlað fyrir fullorðna til meðferðar á óhóflegri syfju í tengslum við drómasýki (e. narcolepsy), með eða án máttleysiskasta (e. cataplexy). Óhófleg syfja er skilgreind sem erfiðleikar við að halda vökuvitund og auknar líkur á að sofna við óhentugar aðstæður. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í geðlækningum, taugalækningum og lungnalækningum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Modiodal. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Clindamycin EQL Pharma, hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur Clindamycin hýdróklóríð, sem jafngildir 150 mg eða 300 mg af clindamycini. Lyfið inniheldur annað hvort 0,6 mg eða 1 mg af laktósa einhýdrati í hverju hörðu hylki. Aðeins skal nota Clindamycin EQL Pharma við eftirfarandi ábendingum hjá sjúklingum sem eru viðkvæmir fyrir beta-laktam sýklalyfjum eða þegar slík lyf henta ekki af öðrum ástæðum: Kok- og eitlubólga (e. pharyngotonsillitis). Sýkingar í húð og mjúkvefjum, þar með talið ítrekuð svitakirtlabólga (e. hidradenitis). Lyfið er samheitalyf lyfsins Dalacin sem er á markaði hérlendis. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Cosopt sine, augndropar lausn. Í hverjum ml eru 22,26 mg af dorzólamíðhýdróklóríði, sem samsvarar 20 mg af dorzólamíði og 6,83 mg af tímólólmaleati, sem samsvarar 5 mg af tímólóli. Lyfið er ætlað til meðferðar hækkaðs augnþrýstings hjá sjúklingum með gleiðhornsgláku og gleiðhornsgláku með tálflögnun (e. pseudoexfoliative syndrome) þegar staðbundin meðferð með beta-blokkum eingöngu hefur ekki reynst nægjanleg. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Cyanokit, innrennslisstofn, lausn. Hettuglasið inniheldur 5 g af hýdroxókóbalamíni. Eftir blöndun við 200 ml af þynningarefni, inniheldur hver ml af blandaðri lausn 25 mg af hýdroxókóbalamíni. Lyfið er ætlað til meðferðar þegar vitað er eða grunur er um blásýrueitrun hjá öllum aldurshópum. Ásamt lyfjagjöf með Cyanokit skal nota viðeigandi afmengunar- og stuðningsaðgerðir. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Panodil Junior, endaþarmsstíll. Hver endaþarmsstíll inniheldur 125 mg af parasetamóli. Lyfið er ætlað við vægum verkjum og sem hitalækkandi. Lyfið er frumlyf og er lausasölulyf.

Salmex, innöndunarduft. Við hverja einstaka innöndun fæst skammtur (skammturinn sem munnstykkið losar) sem er 45 míkrógrömm af salmeteróli (sem salmeterólxínafóat) og 93, 233 eða 465 míkrógrömm af flútíkasónprópíónati. Þetta samsvarar afmældum skammti sem er 50 míkrógrömm af salmeteróli (sem salmeterólxínafóat) og 100, 250 eða 500 míkrógrömm af flútíkasonprópíónati. Lyfið er ætlað til meðferðar hjá sjúklingum til samfelldrar meðferðar gegn astma þar sem samsett meðferð (langverkandi β2 örvi og barksteri til innöndunar) á við. Lyfið er einnig ætlað til meðferð við einkennum hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu með FEV1<60% af áætluðu gildi (fyrir gjöf berkjuvíkkandi lyfs) sem hafa umtalsverð einkenni þrátt fyrir reglulega meðferð með berkjuvíkkandi lyfjum og sögu um endurtekið versnandi ástand. Lyfið er lyfseðilsskylt og er blendingslyf (e. hybrid medicine).

Dýralyf

Lidor vet. stungulyf, lausn handa hestum, hundum og köttum. 1 ml inniheldur 24,65 mg af lídókaínhýdróklóríðeinhýdrati sem jafngildir 20 mg af lídókaíni. Hjálparefni með þekkta verkun eru metýlparahýdroxýbenzóat 1,3 mg og própýlparahýdroxýbenzóat 0,2 mg. Lyfið er ætlað til yfirborðsdeyfingar í augum, vefjadeyfingar, deyfingar í lið, taugadeyfingar og utanbastsdeyfing hjá hestum. Einnig er lyfið ætlað til deyfingar vegna augn- og tannlækninga, vefjadeyfingar og utanbastsdeyfingar hjá hundum og köttum. Lyfið má eingöngu nota handa dýrum þegar dýralæknir gefur það sjálfur. Lyfið er samheitalyf lyfsins Lurocaine sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Til baka Senda grein