Fréttir


Fréttir

Ný lyf á markað 1. júlí 2018

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. júlí 2018.

5.7.2018

Ný lyf sem komu á markað 1. júlí 2018

Cinacalcet ratiopharm, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 30 mg cinacalcet sem hýdróklóríð. Lyfið er ætlað til meðferðar á afleiddri kalkvakaofseytingu hjá sjúklingum með nýrnasjúkdóm á lokastigi, sem eru á skilunarmeðferð. Einnig má nota lyfið sem þátt í meðferð með lyfjum sem binda fosfat og/eða með D-vítamín-sterólum, eftir því sem við á. Að auki er lyfið notað til að draga úr blóðkalsíumhækkun hjá sjúklingum með krabbamein í kalkkirtli eða frumkomna kalkvakaofseytingu þar sem brottnám á kalkkirtli yrði ráðlagt á grundvelli kalsíumþéttni í sermi, en þar sem ekki má framkvæma brottnám á kalkkirtli eða það er ekki klínískt viðeigandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Cinveron, stungulyf, lausn. Hver lykja inniheldur 4 ml af ondansetrón 2 mg/ml sem ondansetrónhýdróklóríðtvíhýdrat. Lyfið er ætlað til notkunar gegn ógleði og uppköstum af völdum frumuskemmandi krabbameinslyfja og geislameðferðar. Cinveron er jafnframt ætlað til að koma í veg fyrir og til meðferðar við ógleði og uppköstum eftir skurðaðgerðir. Lyfið er sjúkrahúslyf og lyfseðilsskylt.

Ezetimib Medical Valley, töflur. Hver tafla inniheldur 10 mg af ezetimíbi. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er ætlað til notkunar gegn frumkominni kólesterólhækkun, fyrirbyggjandi meðferð við hjarta- og æðasjúkdómum, arfhreinni ættgenginni kólesterólhækkun og arfhreinni sítósterólhækkun. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Fiasp, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna og stungulyf, lausn í rörlykju. 1 ml af lausn inniheldur 100 einingar aspartinsúlín sem er framleitt með raðbrigða DNA tækni. Einn áfylltur lyfjapenni inniheldur 300 einingar aspartinsúlín í 3 ml lausn og ein rörlykja inniheldur 300 einingar aspartinsúlín í 3 ml af lausn. Lyfið er ætlað til meðferðar við sykursýki hjá fullorðnum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Finasterid STADA, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 1 mg af finasteridi. Lyfið er ætlað við byrjunarstigi karlaskalla hjá körlum. Lyfið stöðvar framgang karlaskalla hjá körlum á aldrinum 18-41 árs. Verkun lyfsins við hártapi á gagnaugasvæði og lokastigi hártaps hefur ekki verið staðfest. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Remurel, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. 1 ml af stungulyfi, lausn, inniheldur 40 mg af glatíramerasetati sem jafngildir 36 mg af glatírameri í áfylltri sprautu. Lyfið er ætlað til meðferðar á heila- og mænusiggi (MS) með köstum (e. relapsing forms of multiple sclerosis). Lyfið er ekki ætlað til notkunar við síversnunarformi sjúkdómsins (e. Primary or secondary progressive MS). Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í taugasjúkdómum með sérþekkingu og reynslu í meðferð á MS. Lyfið er sjúkrahúslyf og lyfseðilsskylt.

Sertralin Krka, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 50 mg eða 100 mg af sertralini sem sertralin hýdróklóríð. Lyfið er ætlað til meðferðar á: Alvarlegum þunglyndislotum. Til að fyrirbyggja endurkomu alvarlegra þunglyndislota. Felmtursröskun (ofsahræðsla), með eða án víðáttufælni. Þráhryggju- og árátturöskun hjá fullorðnum og börnum á aldrinum 6-17 ára. Félagslegri kvíðaröskun. Áfallastreituröskun. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Tadalafil ratiopharm, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 20 mg af tadalafili. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er ætlað til meðferðar við ristruflunum hjá fullorðnum karlmönnum og er lyfseðilsskylt. Lyfið er ekki ætlað konum.

Til baka Senda grein