Fréttir


Fréttir

Ný lyf á markað 1. desember 2019

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1.desember 2019.

12.12.2019

Ný lyf á markað 1.desember 2019

Levonorgestrel Apofri, tafla. Hver tafla inniheldur 1,5 mg af levonorgestreli. Lyfið inniheldur laktósa. Ef um er að ræða óþol fyrir laktósa skal hafa í huga að hver Levonorgestrel Apofri tafla inniheldur 43 mg af laktósa einhýdrati. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er neyðargetnaðarvörn og skal taka innan 72 klst. frá óvörðum samförum eða ef getnaðarvörn sem verið er að nota bregst. Lyfið er samheitalyf lyfsins Postinor. Heimilt er að selja eina pakkningu í lausasölu og er eindregið mælst til þess að lyfjafræðingur afgreiði lyfið.

Methylphenidate STADA, hörð hylki með breyttan losunarhraða. Hvert hylki með breyttan losunarhraða inniheldur 17,3 mg, 25,95 mg, 34,60 mg eða 51,90 mg af metýlfenidati sem 20 mg, 30 mg, 40 mg eða 60 mg af metýlfenidathýdróklóríði. Metýlfenidat er ætlað sem hluti af víðtækri meðferðaráætlun við athyglisbresti með ofvirkni (ADHD) hjá börnum, 6 ára og eldri og fullorðnum, þegar stuðningsúrræði ein sér nægja ekki. Meðferð skal hafin undir umsjón sérfræðings í meðferð ADHD, s.s. barnalæknis, barna- og unglingageðlæknis eða geðlæknis, og skal hann hafa umsjón með henni. Lyfið er samheitalyf lyfsins Ritalin Uno og er eftirritunarskylt og lyfseðilsskylt.

Panodil Extra, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 500 mg parasetamól og 65 mg koffín. Lyfið er ætlað sem skammtímameðferð við hita t.d. í tengslum við kvef og inflúensu ásamt vægum til miðlungsmiklum verkjum t.d. höfuðverk, tannverk, tíðaverkjum ásamt vöðva- og liðverkjum. Lyfið er ætlað fullorðnum og börnum 12 ára og eldri (>40 kg). Lyfið er lausasölulyf og er heimilt að selja takmarkað magn lyfsins í lausasölu, mest 20 stk. handa einstaklingi. Lyfið er blendingslyf (e. hybrid medicine) og byggir hluti markaðsleyfis lyfsins á gögnum um lyfið Panadol Extra sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi.

Slenyto, forðatöflur. Hver forðatafla inniheldur 1 mg eða 5 mg af melatóníni. Lyfið inniheldur laktósaeinhýdrat. Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Slenyto er ætlað til meðferðar við svefnleysi hjá börnum og unglingum á aldrinum 2-18 ára með röskun á einhverfurófi og/eða Smith-Magenis heilkenni, þegar ráðstafanir í tengslum við svefnvenjur hafa ekki dugað til. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Til baka Senda grein