Fréttir


Fréttir

Ólögleg sala dýralyfja í gæludýrabúðum

Gæludýraverslunum er óheimilt að flytja til landsins lyf og bjóða þau til sölu

17.11.2016

Að gefnu tilefni vill Lyfjastofnun minna á að um innflutning, heildsöludreifingu og sölu lyfja hér á landi gilda ákvæði lyfjalaga nr. 93/1994, með síðari breytingum. Um innflutning og heildsöludreifingu á lyfjum, þ.m.t. dýralyfjum, gilda ákvæði 1. mgr. 32. gr. lyfjalaga, en þar segir að þeim einum sem hlotið hafa leyfi Lyfjastofnunar sé heimilt að stunda innflutning og heildsöludreifingu lyfja. Lyfjastofnun vísar jafnframt til 1. mgr. 7. gr. lyfjalaga þar sem segir að fullgerð lyf (lyf, tilbúin eða sem næst tilbúin til notkunar) er einungis heimilt að flytja til landsins, selja eða afhenda að fengnu markaðsleyfi eða leyfi til samhliða innflutnings. Þá vísar Lyfjastofnun ennfremur til 1. mgr. 20. gr. lyfjalaga þar sem fram kemur að leyfi til lyfsölu, þ.e. að selja almenningi lyf, hafa þeir einir sem hlotið hafa leyfi Lyfjastofnunar.

Með hliðsjón af framangreindu minnir Lyfjastofnun á að gæludýraverslanir uppfylla almennt ekkert ofangreindra skilyrða lyfjalaga. Gæludýraverslunum er því með öllu óheimilt að flytja til landsins lyf og bjóða þau til sölu. Bendir Lyfjastofnun á að dýralæknar hér á landi hafa heimild til og geta ávísað dýralyfjum til dýraeigenda, sé notkun þeirra nauðsynleg til að tryggja heilsu og velferð gæludýra.
Til baka Senda grein