Fréttir


Fréttir

Norrænir samstarfsfundir haldnir hjá Lyfjastofnun

9.9.2016

Í síðustu viku fóru fram tveir norrænir samstarfsfundir hjá Lyfjastofnun. Annar hópurinn fundaði um norrænar lyfjapakkningar og hinn um lækningatæki. Öll Norðurlöndin áttu fulltrúa á báðum fundunum og eindreginn vilji er til áframhaldandi og vaxandi samvinnu í báðum hópunum.

Fundur lyfjastofnana á Norðurlöndunum - norrænar lyfjapakkningar

Dagana 29. og 30. ágúst hélt vinnuhópurinn „Nordic Package Group“ fund í Lyfjastofnun. Þessi vinnuhópur var settur á laggirnar árið 2010 og var fyrst undir forystu Íslands en síðan tók Svíþjóð við því hlutverki. Helstu verkefni hópsins eru að leita leiða til að auðvelda lyfjaframleiðendum að markaðssetja fjöllanda pakkningar og auka þannig framboð lyfja á litlum mörkuðum.

Vinnuhópurinn hefur gefið út leiðbeiningar og ráðleggingar til lyfjaframleiðenda - sjá undir Related information“.

Samstarf Norðurlandanna í lyfjamálum fer almennt séð vaxandi og mikil áhersla er á aukið framboð lyfja, sem og úrræði til að draga úr lyfjaskorti. Til að áfram náist árangur í þessum efnum er mikilvægt að lyfjaframleiðendur nýti sér þau úrræði sem þeim standa til boða til að framleiða fjöllanda pakkningar lyfja.

Fundur lyfjastofnana á Norðurlöndunum - lækningatæki

27. fundur Norrænna lögbærra yfirvalda með lækningatækjum var haldinn hjá Lyfjastofun dagana 31. ágúst og 1.sept. Norðurlöndin hafa lengi haft samstarf sín á milli um málefni er tengjast stjórnsýslu varðandi framleiðslu og notkun lækningatækja og framkvæmd Evrópureglna á því sviði.

Á fundinum var mest rætt um nýjar reglugerðir Evrópusambandsins um lækningatæki og lækningatæki til sjúkdómsgreiningar í glasi. Fram kom að þessar nýju reglugerðir gera mjög auknar kröfur til lögbæru yfirvaldanna og kalla á mikinn undirbúning og skipulag fyrir innleiðingu þeirra. Þátttakendur gerðu grein fyrir undirbúningi og stöðu hver í sínu landi. Einnig var fjallað um notkun tækja sem ætluð eru til vísindarannsókna við sjúkdómsgreiningu og lagaskilyrði því tengd. Þá var fjallað um atvikatilkynningar er tengjast lækningatækjum og öryggistilkynningar í framhaldi atvikarannsóknar og að lokum var fjallað um gagnasendingar og söfnun gagna við heimavöktun með lækningatækjum og öppum í snjalltækjum.  

Öll Norðurlöndin áttu fulltrúa á fundinum og fram kom samstaða um að skiptast á upplýsingum og reynslu er tengist innleiðingu nýju reglugerðanna og áframhaldandi samstarfi. Ákveðið var að næsti fundur yrði haldinn í Noregi að ári liðnu.

Til baka Senda grein