Fréttir


Fréttir

Athugasemd Lyfjastofnunar vegna greinar í Fréttablaðinu

Vegna ummæla í viðtalsgrein í Fréttablaðinu 31. ágúst 2016 vill Lyfjastofnun taka eftirfarandi fram.

31.8.2016

Vegna ummæla verkefnisstjóra lyfjamála hjá Embætti landlæknis í viðtali í Fréttablaðinu 31. ágúst 2016 vill Lyfjastofnun taka eftirfarandi fram.

Ávísanir lyfseðilsskyldra lyfja eru að öllu leyti á ábyrgð þess læknis sem ávísunina gefur út. Lyfjaávísun byggir á faglegu mati læknis, og þó svo að óskir sjúklings um að ávísað sé tiltekinni pakkningastærð geti komið inn í framangreint mat læknis, þá geta slíkar óskir aldrei ráðið því hvaða pakkningastærð verður fyrir valinu. Sérstaklega á þetta við um lyf sem valdið geta ávana og fíkn.

Í umræddu viðtali er bent á að ekki sé samræmi milli verðs og magns af tilteknu svefnlyfi og sterku verkjalyfi. Á sama tíma er á það bent að lyf þessi eru að öllu jöfnu greidd að fullu af sjúklingi og hagkvæmara fyrir hann að fá meira magn en minna á hverja ávísun.

Ákvörðun lyfjaverðs, sem lyfjagreiðslunefnd hefur með höndum sbr. XV. kafla lyfjalaga, nr. 93/1994, með síðari breytingum, er tekin með hliðsjón af lyfjaverði sambærilegra pakkninga á Norðurlöndum. Almennt eru litlar pakkningar óhagkvæmari í framleiðslu en stórar og á það við um flest lyf.  Ávísun á lyfseðilsskyld lyf, og ekki hvað síst eftirritunaskyld lyf, sem eru flest ávana- og fíknilyf, hlýtur að taka mið af þörf sjúklings hverju sinni fremur en töfluverði og ávísuninni stýrir læknirinn. Að gefnu tilefni skal á það bent að Embætti landlæknis á fulltrúa í lyfjagreiðslunefnd, en þar að auki eiga Lyfjastofnun, Sjúkratryggingar Íslands og fjármálaraðuneytið fulltrúa í nefndinni.

Í nefndu viðtali er því haldið fram að það sama gildi um tiltekin morfínskyld lyf. Lyfjastofnun bendir á að hafi lyfjagreiðslunefnd ákveðið að lyf hljóti greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þá endurspeglar hlutur sjúklings ekki verð þess magns sem ávísað er.

Ef sjúklingur fær lyfjaávísun fyrir 200 stykkjum af sterkum verkjalyfjum, en dæmi um slíkt er tekið í viðtalinu sem um ræðir, er það vegna þess að læknirinn telur sjúklinginn hafa þörf fyrir þessi lyf enda er ávísunin á hans valdi og á hans ábyrgð.

Ávana- og fíknilyf eru þau lyf, sem ætla má að geti haft skaðleg áhrif vegna fíkni- eða ávanahættu, enda geti þau vegna eiginleika sinna valdið því að notandi þeirra verði háður þeim vegna vanabindingar eða líkamlegrar fíknar. Ávana- og fíknilyf eru eftirritunarskyld, ef þau, vegna eiginleika sinna, geta haft í för með sér sérstaka hættu á misnotkun. Um eftirritunarskyld lyf gilda sérstakar reglur um ávísun þeirra, afgreiðslu, móttöku og skráningu upplýsinga. Lyfjastofnun er heimilt að höfðu samráði við Embætti landlæknis, að bæta við eða undanskilja eftirritunarskyldu ákveðin lyf, lyfjaform eða styrkleika.

Það er skoðun Lyfjastofnunar að telji Embætti landlæknis það vandamál að of stórum lyfjaskömmtum sé ávísað þá snúi það vandamál fyrst og síðast að útgáfu lyfseðla. Samkvæmt V. kafla lyfjalaga er það Embætti landlæknis sem er falið að hafa eftirlit með lyfjaávísunum lækna og tannlækna og var sk. lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis m.a. settur á fót með lagabreytingu árið 2003 með það að aðalmarkmiði að gera Embætti landlæknis betur kleift að sinna þessu hlutverki sínu.
Til baka Senda grein