Fréttir


Fréttir

Hvað get ég gert ef vart verður við einkenni alvarlegra aukaverkana eða ofskömmtunar fentanýls?

31.8.2016

Fentanýl er virkt lyfjaefni sem mest er notað í formi lyfjaplástra en önnur lyfjaform eru einnig á markaði. Lyfið er notað til að stilla mjög mikla og langvinna verki og er einkum notað af krabbameinssjúklingum. Læknir ákveður skammt fyrir hvern og einn sjúkling og metur reglulega þörf fyrir breytta meðferð. Aldrei á að nota stærri skammt lyfsins en þörf er á til að stilla verki samkvæmt ráðleggingu læknis.

Heiti þeirra fentanýl forðaplástra sem notaðir eru við meðferð sjúklinga á Íslandi eru: Durogesic, Fentanyl Actavis, Fentanyl ratiopharm.

Ef vart verður við einkenni alvarlegra aukaverkana eða ofskömmtunar fentanýls á að taka plásturinn af húðinni og hafa samband við lækni

Þekkið einkenni alvarlegra aukaverkana eða ofskömmtunar fentanýls

Ef vart verður við einhver af eftirtöldum einkennum alvarlegra aukaverkana eða ofskömmtunar þegar fentanýlplástur er notaður skal taka plásturinn af húðinni og hafa samband við lækni eða fara án tafar á næsta sjúkrahús eða bráðamóttöku. Það gæti þurft að veita læknismeðferð með hraði.

  • Óeðlileg syfjan og/eða skert öndunargeta. Á meðan beðið er eftir lækni eða á leiðinni á sjúkrahús eða bráðamóttöku skal halda sjúklingnum vakandi með því að tala við hann öðru hverju eða koma hreyfingu á hann eins og við verður komið (hrista ef með þarf).
  • Skyndileg bólga í andliti eða hálsi, alvarleg erting, roði eða blöðrur á húð.
  • Flog
  • Minnkuð meðvitund eða meðvitundarleysi

Varist að nota stærri skammt fentanýls en þörf er á

Læknir ávísar lyfjum eftir að hafa framkvæmt læknisfræðilegt mat á hverjum sjúklingi fyrir sig. Ávísun lyfja er einstaklingsbundin og það sem hentar einum sjúklingi hentar ekki endilega öðrum. Skammtur sem virðist ekki hafa mikil áhrif á einstakling með þol fyrir lyfinu (t.d. vegna mikillar fyrri notkunar) getur verið banvænn fyrir einstakling sem er að nota það í fyrsta skipti.

Aldrei á að nota stærri skammt fentanýls en þörf er á til að stilla verki samkvæmt ráðleggingu læknis.

Fjarlægið lyfjaplásturinn og leitið læknisaðstoðar ef annað eða hvorutveggja af eftirtöldu á við:

  • Ef notaðir eru of margir plástrar
  • Ef notaðir eru plástrar af röngum styrkleika

Tilkynningar alvarlegra aukaverkana hjálpa til við að auka öryggi við notkun lyfja

Tilkynnið alvarlegar aukaverkanir til Lyfjastofnunar. Það hjálpar lyfjayfirvöldum að auka öryggi við notkun lyfja. Einstaklingar geta sjálfir tilkynnt um aukaverkun til Lyfjastofnunar. Einnig skal tilkynna um misnotkun lyfja eða ef mistök verða við notkun þeirra.

Samantekt:

1.       Þekkið einkenni alvarlegra aukaverkana eða ofskömmtunar fentanýls

2.       Fjarlægið fentanýlplásturinn og hafið samband við lækni ef vart verður við einkenni alvarlegra aukaverkana eða ofskömmtunar

3.       Tilkynnið alvarlegar aukaverkanir til Lyfjastofnunar

Þessi frétt inniheldur einungis samantekt um framangreinda þætti. Læknum sem ávísa lyfinu og sjúklingum sem nota það er bent á mikilvægi þess að lesa samþykkta lyfjatexta; fylgiseðil fyrir sjúklinga og samantekt um eiginleika lyfs (SmPC) á www.serlyfjaskra.is

Sjá einnig:

Fentanýl lyfjaplástrar – öryggi við notkun og förgun þeirra
Til baka Senda grein