Fréttir


Fréttir

Hvað get ég gert til að minnka hættu á aukaverkun fentanýlplástra og alvarlegum afleiðingum þeirra?

30.8.2016

Fentanýl er virkt lyfjaefni sem mest er notað í formi lyfjaplástra en önnur lyfjaform eru einnig á markaði. Lyfið er notað til að stilla mjög mikla og langvinna verki og er einkum notað af krabbameinssjúklingum. Læknir ákveður skammt fyrir hvern og einn sjúkling og metur reglulega þörf fyrir breytta meðferð. Aldrei á að nota stærri skammt lyfsins en þörf er á til að stilla verki samkvæmt ráðleggingu læknis.

Heiti þeirra fentanýl forðaplástra sem notaðir eru við meðferð sjúklinga á Íslandi eru: Durogesic, Fentanyl Actavis, Fentanyl ratiopharm.

Eftirfarandi atriði geta minnkað hættu á aukaverkun fentanýlplástra og alvarlegum afleiðingum þeirra:

 

 • Fylgið leiðbeiningum læknis um notkun lyfsins.
 • Ef óljóst er hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækni eða lyfjafræðingi áður en notkun hefst.
 • Lesið fylgiseðilinn með lyfinu og fylgið þeim ráðleggingum sem þar koma fram.
 • Gætið þess að nota ekki of marga plástra.
 • Setjið ekki nýjan plástur á húðina fyrr en sá sem fyrir var hefur verið tekinn af.
 • Notið plástra af réttum styrkleika. Varast skal að nota of háan styrkleika af lyfinu.
 • Klippið forðaplásturinn ekki í sundur og notið ekki plástur sem ekki er í heilu lagi eða hefur orðið fyrir hnjaski.
 • Gætið vel að því að plásturinn límist nægilega vel á húðina og detti hvorki af né komist í snertingu við annan einstakling t.d. við snertingu við maka eða barn. Plástur sem límist á annnan einstakling getur valdið ofskömmtun og haft banvænar afleiðingar í för með sér (sérstaklega ef um barn er að ræða).
 • Eftir að búið er að nota lyfjaplástra á að brjóta þá saman þannig að límhliðin vísi inn og geyma í ytri umbúðunum, skila þeim síðan í apótek þar sem þeim er fargað á öruggan hátt.
 • Fargið notuðum og ónotuðum plástrum með tryggum hætti. Öruggast er að skila notuðum plástrum og lyfjum sem ekki er not fyrir t.d. umframbirgðum og fyrndum lyfjum í næsta apótek. Notaðir lyfjaplástrar geta innihaldið mikið magn af fentanýli. Það getur haft banvænar afleiðingar í för með sér að komast óvart í snertingu við notaða og ónotaða lyfjaplástra og ber sérstaklega að vera á varðbergi þar sem eru börn eða heimilisdýr.
 • Geymið ávallt lyf þar sem börn hvorki ná til né sjá.
 • Gefið ekki öðrum fentanýl lyfjaplástur eða seljið. Það getur valdið þeim skaða.
 • Misnotkun á fentanýli getur valdið ofskömmtun og haft banvænar afleiðingar í för með sér.

 

Þessi frétt inniheldur einungis samantekt um framangreinda þætti. Læknum sem ávísa lyfinu og sjúklingum sem nota það er bent á mikilvægi þess að lesa samþykkta lyfjatexta; fylgiseðil fyrir sjúklinga og samantekt um eiginleika lyfs (SmPC) á www.serlyfjaskra.is

Sjá einnig:

Fentanýl lyfjaplástrar – öryggi við notkun og förgun þeirra

Hvað get ég gert ef vart verður við einkenni alvarlegra aukaverkana eða ofskömmtunar fentanýls?

Til baka Senda grein