Fréttir


Fréttir

Fentanýl lyfjaplástrar - öryggi við notkun og förgun þeirra

25.8.2016

Hvað er fentanýl og í hvers konar meðferð er það notað?

Fentanýl er virkt lyfjaefni sem mest er notað í formi lyfjaplástra en önnur lyfjaform eru einnig á markaði. Lyfið er notað til að stilla mjög mikla og langvinna verki og er einkum notað af krabbameinssjúklingum. Læknir ákveður skammt fyrir hvern og einn sjúkling og metur reglulega þörf fyrir breytta meðferð. Aldrei á að nota stærri skammt lyfsins en þörf er á til að stilla verki samkvæmt ráðleggingu læknis.

Heiti þeirra fentanýl forðaplástra sem notaðir eru við meðferð sjúklinga á Íslandi eru: Durogesic, Fentanyl Actavis, Fentanyl ratiopharm.

Hverjar eru mögulegar aukaverkanir fentanýlplástra?

Öll lyf geta valdið aukaverkunum. Algengustu aukaverkanir fentanýlplástra eru svefnhöfgi, höfuðverkur, sundl, ógleði, uppköst og hægðatregða.

Erfiðleikar við að anda geta komið fram sem aukaverkun við notkun lyfsins. Skert öndunargeta er alvarleg aukaverkun og komi hún fram á að hafa samband við lækni tafarlaust.

Mjög sjaldgæft er að öndunarstopp komi fram þegar lyfið er notað samkvæmt læknisráði.

Notkun lyfsins getur haft aðrar aukaverkanir í för með sér. Áður en notkun fentanýlplástra hefst er mikilvægt að sjúklingar lesi upplýsingar um aukaverkanir í fylgiseðli sem fylgir í pakkningu lyfsins. Fylgiseðilinn er einnig að finna á www.serlyfjaskra.is

Til að fylgjast með öryggi við notkun lyfja er mikilvægt að tilkynna lyfjayfirvöldum um alvarlegar aukaverkanir af völdum lyfja. Einstaklingar geta sjálfir tilkynnt um aukaverkun á vef Lyfjastofnunar.

Lyfjastofnun hafa ekki borist tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir af notkun lyfsins á Íslandi.

Hvað getur gerst ef of mikið af fentanýli er notað?

Alvarlegasta einkenni ofskömmtunar fentanýls er öndunarbæling sem lýsir sér með lækkaðri öndunartíðni og/eða minnkaðri andrýmd og bláma í slæmum tilvikum. Önnur einkenni eru mikill svefnhöfgi sem getur þróast yfir í dá, slappleiki í vöðvum, köld og þvöl húð, ljósopsþrenging og stundum hægsláttur og lágþrýstingur. Alvarleg ofskömmtun getur haft í för með sér öndunarstopp, blóðrásarbilun, hjartastopp og dauða.

Öryggisatriði varðandi fentanýl sem hafa ber í huga

Varist mögulega yfirfærslu plástursins á aðra

Fentanýl lyfjaplástrar eru næstum því gegnsæir og því getur verið erfitt að koma auga á þá ef þeir detta af sjúklingnum. Þetta getur valdið því að plásturinn yfirfærist á aðra, sem geta þá orðið fyrir áhrifum lyfsins. Hættur sem þessar geta t.d. skapast þegar sjúklingur deilir rúmi með öðrum. Til þess að fyrirbyggja slys af þessu tagi stendur til að breyta útliti plástranna en þangað til er mikilvægt að vera á varðbergi til þess að forðast slys. Það getur haft banvænar afleiðingar í för með sér að komast óvart í snertingu við notaða og ónotaða plástra, og ber sérstaklega að vera á varðbergi þar sem eru börn eða heimilisdýr.  Mikil hætta getur skapast ef börn setja fentanylplástra upp í sig.  

Notaðir lyfjaplástrar eru ekki hættulausir

Eftir notkun getur plásturinn enn innihaldið mikið magn af fentanýli. Eftir að búið er að nota lyfjaplástra á að brjóta þá saman þannig að límhliðin vísi inn og geyma í ytri umbúðunum, skila þeim síðan í apótek þar sem þeim er fargað á öruggan hátt. Umframbirgðum af plástrum sem ekki eru notaðir skal einnig skila í apótek.

Örugg geymsla og förgun lyfjaplástra er mikilvæg

Mikilvægt er að geyma notaða og ónotaða plástra þar sem börn hvorki ná til né sjá. Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi.

Öruggast er að skila lyfjum sem ekki er not fyrir, t.d. umframbirgðum og fyrndum lyfjum í næsta apótek til eyðingar.

Nánari upplýsingar um lyfin þ.m.t. fylgiseðla má finna í Sérlyfjaskrá

Til baka Senda grein