Fréttir

Öryggi við notkun lyfja - Móttaka læknar og sjúklingar mikilvægar öryggisupplýsingar um lyf?

6.7.2016

Með öryggi sjúklinga í huga er mjög mikilvægt að tryggja að tilgreindir heilbrigðisstarfsmenn fái í hendur sérstakt öryggis- og fræðsluefni fyrir ákveðin lyf. Það er síðan lagt í hendur viðkomandi lækna að tryggja að sjúklingar fái þann hluta þessa fræðsluefnis sem þeim er ætlaður.

Lyfjastofnun hefur gripið til nokkurra aðgerða til að stuðla að því að þeir sem efnið er ætlað fái það í hendur, lesi það og skilji og fylgi þeim ráðleggingum sem þar koma fram.

Til að kanna árangur ákveðinna aðgerða sendi stofnunin íslenskum læknum spurningakönnun í október 2015. Það var gert í samvinnu við Læknafélag Íslands sem sendi könnunina með tölvupósti á um 1.500 netföng. Ekki er hægt að leggja mat á það hve margir læknar móttóku þessa tölvupósta en 200 læknar svöruðu könnuninni. Stofnunin þakkar þeim læknum sem tóku þátt og telur að þrátt fyrir að mun betra svarhlutfall hefði verið óskandi sé hægt að fá nokkra mynd af árangri þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til á Íslandi út frá þeim svörum sem bárust.

Ljóst þykir að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á Íslandi auka líkurnar á því að læknar móttaki og kynni sér þessar mikilvægu öryggisupplýsingar en talin er ástæða til að óttast að brestur sé á því að sjúklingar fái það fræðsluefni sem þeim er ætlað. Frekari aðgerðir eru taldar mikilvægar til að auðvelda aðgengi að fræðsluefninu og er í því sambandi einkum horft til birtingar þess á netinu.

Lyfjastofnun hefur tekið saman greinargerð þar sem er leitast við að gefa mynd af því sem gert hefur verið á Íslandi og af hverju, ásamt því að leggja mat á árangur þessara aðgerða. Hugmyndir um úrbætur eru einnig viðraðar.

Ef lesendur hafa hugmyndir um hvernig betur megi tryggja að heilbrigðisstarfólk og sjúklingar fái mikilvægar öryggisupplýsingar og tileinki sér þær, tekur Lyfjastofnun gjarnan við ábendingum í tölvupósti á netfangið [email protected], merkt lyfjagát.

Til baka Senda grein