Fréttir

Ný lyf á markað 1. mars 2016

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markaði 1. mars 2016

8.3.2016

Bicacta, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 150 mg af bikalútamíði. Lyfið er ætlað til notkunar annað hvort eitt sér eða sem viðbót við algert brottnám blöðruhálskirtils eða geislameðferð handa sjúklingum með blöðruhálskirtilskrabbamein, sem vaxið hefur út fyrir mörk kirtilsins. Lyfið er lyfseðilsskylt.
 

Cloxacillin Villerton, stungulyfs-/innrennslisstofn, lausn. Hvert hettuglas inniheldur kloxacillínnatríum sem samsvarar 1 g af kloxacillíni. Lyfið er ætlað til meðferðar við sýkingum af völdum stafýlókokka sem mynda penicillinasa: sýkingum í húð- og mjúkvefjum, hjartaþelsbólgu, graftarkýlum, bein- og mergbólgu og blóðsýkingu. Lyfið er sjúkrahúslyf.

Equibactin vet. Pasta til inntöku. Hvert gramm inniheldur: 66,7 mg af trímetóprími og 333,3 mg af súlfadíazíni. Lyfið er ætlað hestum til meðferðar gegn sýkingum af völdum baktería sem eru næmar fyrir samsetningu trímetópríms og súlfadíazíns. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Finilac, mixtúra, lausn. Mixtúran inniheldur 50 míkróg/ml af kiabergólíni. Lyfið er ætlað hundum og köttum við sýndarþungun hjá tíkum og bælingu mjólkurmyndunar hjá tíkum og læðum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Penethaone vet.  Stungulyfsstofn og leysir, dreifa fyrir nautgripi. Einn ml af blönduðu lyfi inniheldur penethamathýdrójoðíð 236,3 mg sem samsvarar 250.000 a.e. af penethamathýdrójoðíði. Lyfið er ætlað við meðferð á júgurbólgu hjá mjólkandi kúm af völdum penicillínnæmra Streptococcus uberis, Streptococcus dysgalactiae, Streptococcus agalactiae og Staphylococcus aureus. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Sertralin Hexal, filmuhúðaðartöflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur sertralinhýdróklóríð sem jafngildir 50 mg eða 100 mg af sertralini. Lyfið er ætlað til meðferðar á alvarlegum þunglyndislotum, til að fyrirbyggja endurkomu alvarlegs þunglyndis, felmtursröskun með eða án víðáttufælni, þráhyggju-árátturöskun hjá fullorðnum og börnum 6-17 ára, félagsfælni og áfallastreituröskun. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Sevelamerkarbonat WH, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 800 mg sevelamerkarbónat. Lyfið er ætlað til að hafa hemil á blóðfosfatsóhófi hjá fullorðnum sjúklingum í blóðskilun eða kviðskilun. Lyfið er einnig ætlað til að hafa hemil á blóðfosfatsóhófi (hyperphosphataemia) hjá fullorðnum sjúklingum með langvinnan nýrnasjúkdóm, sem eru ekki í blóðskilun. Markaðssetning á Íslandi er háð því að Lyfjastofnun hafi staðfest að sérstök skilyrði er varða öryggi og verkun við notkun lyfsins séu uppfyllt. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Vancomycin Actavis, Hvert hettuglas inniheldur vancomycinhýdróklóríð sem samsvarar 500.000 a.e. eða 1.000.000 a.e. Lyfið er ætlað til meðferðar við alvarlegum sýkingum af völdum Gram-jákvæðra baktería sem eru næmar fyrir vancomycini, sem ekki er hægt að meðhöndla eða hafa ekki svarað eða eru ónæmar fyrir öðrum sýklalyfjum. Lyfið er sjúkrahúslyf.

 

Sjá lista

Til baka Senda grein