Fréttir

Sala lyfja á samfélagsmiðlum og söluvefjum á netinu er óheimil

Ríkar gæðakröfur eru gerðar til framleiðenda lyfja.  Áhætta fylgir því að kaupa lyf frá þeim sem ekki uppfylla slíkar gæðakröfur.

4.3.2016

Að gefnu tilefni bendir Lyfjastofnun á að sala lyfja á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum, og á söluvefjum á netinu, s.s. á Bland.is, er með öllu óheimil. Ríkar gæðakröfur eru gerðar til framleiðenda lyfja.  Áhætta fylgir því að kaupa lyf frá þeim sem ekki uppfylla slíkar gæðakröfur. Engin trygging er fyrir því að seljendur lyfja á samfélagsmiðlum selji lyf sem uppfylla kröfur yfirvalda um neytendavernd.

Með eftirfarandi spurningum og svörum vekur Lyfjastofnun athygli á nokkrum áhættuþáttum sem fylgja því að kaupa lyf frá seljendum sem ekki hafa leyfi til lyfsölu:

·         Gæti lyfið verið falsað? Dæmi eru um að framleiðendur ólöglegra lyfja líki eftir löglegum lyfjaumbúðum. Algjörlega er óvíst hvaða efni eru í slíkri vöru og í  hvaða magni efnin eru. Mjög erfitt getur verið að greina mismun á umbúðum falsaðra lyfja og löglegra lyfja.

·         Eru réttu innihaldsefnin í vörunni? Mörg dæmi frá nágrannalöndunum eru um að lyfjum sé bætt í vörur sem ekki eiga að innihalda lyf samkvæmt innihaldslýsingu. Dæmi eru um að „náttúruleg“ lyf vegna ristruflana innhaldi lyfjaefnið sildenafil án þess að það sé tekið fram á umbúðum.  Sildenafil er virka innhaldsefnið í sérlyfinu Viagra og samheitalyfjum þess. Lífshættulegt getur verið fyrir hjartasjúklinga, að nota slík lyf.  Einnig eru dæmi um að vörur sem keyptar eru á netinu og sagðar hafa lyfjavirkni innihaldi engin lyfjavirk efni eða ekki þau efni sem fram koma í  innihaldslýsingu. Engin trygging er fyrir því að vörur sem framleiddar eru án eftirlits innihaldi þau efni sem sögð eru vera í vörunni.

·         Við hvaða aðstæður var lyfið framleitt? Lyfjaframleiðendur þurfa að uppfylla strangar kröfur um aðstæður við framleiðslu lyfja.  Aðstæðurnar þurfa m.a. að vera þannig að fyllsta hreinlætis sé gætt og að komið sé í veg fyrir að í lyfin berist sýklar eða mengandi efni. Einnig er þess krafist að lyf séu framleidd eftir forskrift sem viðurkennd hefur verið af lyfjayfirvöldum að lokinni rannsókn á gæðum, öryggi og verkun lyfs. Vottaðir lyfjaframleiðendur eru undir stöðugu eftirliti lyfjastofnana viðkomandi landa. Framleiðendur ólöglegra lyfja eru  eftirlitslausir og því  engin vissa um að þau uppfylli þær kröfur sem eru gerðar til lyfja.

·         Hefur lyfið verið geymt við réttar aðstæður? Ef lyf eru geymd við rangar aðstæður, til dæmis í sólarljósi, við of mikinn hita eða raka, brotnar virka efnið hraðar niður og lyfið gæti misst virkni sína.  Einnig gætu myndast niðurbrotsefni með óæskilega virkni.  Meðan lyf eru í vörslu löglegra dreifingaraðila (lyfjaframleiðendur, lyfjaheildsalar, lyfjabúðir) eru þau geymd við aðstæður sem tryggja gæði lyfjanna.  Lyfjageymslur fyrirtækja sem hafa leyfi til að selja og kaupa lyf eru undir eftirliti lyfjastofnana viðkomandi lands.

·         Mega fæðubótarefni innihalda lyfjavirk efni? Til eru vörur sem innihalda lyfjavirk efni, s.s. melatonin, en eru framleidd og markaðssett sem fæðubótarefni í öðrum löndum. Samkvæmt upplýsingum á síðu Matvælastofnunar er óheimilt að selja fæðubótarefni sem inniheldur lyfjavirk efni eins og t.d. melatónín.   

Leyfi til lyfjasölu hérlendis hafa þeir aðilar einir sem til þess hafa hlotið leyfi Lyfjastofnunar. Tæmandi lista yfir þá sem hafa slíkt leyfi er að finna á heimasíðu Lyfjastofnunar.  Engin íslensk vefverslun eða vefsíða á samskiptamiðlum hefur leyfi Lyfjastofnunar til að selja lyf.

Sænska lyfjastofnunin gaf út myndband árið 2006 sem sýnir dæmi um raunverulegar framleiðsluaðstæður ólöglegs lyfjaframleiðanda og hversu lík fölsuð lyf geta verið þeim löglegu.

Árlega standa Interpol, Europol og Alþjóðatollasamvinnuráðið (WCO) fyrir alþjóðlegri aðgerð "Pangea" sem stefnt er gegn fölsuðum og ólöglegum lyfjum. Ísland hefur tekið þátt aðgerðunum síðan 2010. Í tengslum við Pangea hefur þúsundum vefsíðna um allan heim, þar sem stunduð er ólögleg lyfsala, verið lokað og þungir dómar hafi fallið í lyfjafölsunarmálum t.d. í Bretlandi.

Til baka Senda grein