Fréttir

Lyf við sjaldgæfum sjúkdómum

Með sjaldgæfum sjúkdómum (orphan diseases) er átt við sjúkdóma sem eru lífshættulegir eða valda langvarandi fötlun hjá 5 eða færri af hverjum 10.000 manns innan EES.

24.2.2015

Fyrir tilstilli EES samningsins tekur Ísland þátt í starfi Lyfjastofnunar Evrópu og á heimasíðu stofnunarinnar eru margvíslegar upplýsingar um lyf við sjaldgæfum sjúkdómum. Fái lyf við sjaldgæfum sjúkdómi markaðsleyfi innan EES gerist það að undangengnu mati sem fram fer á vegum Lyfjastofnunar Evrópu og markaðsleyfið gildir í öllum EES ríkjunum.

Lyfjastofnun Evrópu greindi nýlega frá því að á árinu 2014 hefði verið mælt með veitingu markaðsleyfis fyrir fleiri lyf við sjaldgæfum sjúkdómum en nokkru sinni fyrr á einu ári.

Á heimasíðu Lyfjastofnunar Evrópu eru upplýsingar um lyf sem eru með markaðsleyfi og eru ætluð til notkunar við sjaldgæfum sjúkdómum. Um síðustu áramót voru slík lyf alls 81. Af þeim eru 28 (34,5%) markaðssett hér á landi og 7 (8,6%) eru í notkun þrátt fyrir að þau séu ekki markaðssett. Rúmlega 43% þessara lyfja við sjaldgæfum sjúkdómum eru því markaðssett og/eða í notkun á Íslandi.

Hér er listi yfir lyf sem um síðustu áramót höfðu markaðsleyfi hér á landi við sjaldgæfum sjúkdómum. Lyf sem eru markaðssett á Íslandi eru auðkennd með bláum lit en lyf sem eru notuð án þess að vera markaðssett (sk. undanþágulyf) eru auðkennd með rauðum lit. Lyfjastofnun hvetur markaðsleyfishafa til að markaðssetja lyf sín á Íslandi og komast þannig hjá notkun í undanþágukerfinu.

Til baka Senda grein