Fréttir

Lyfjastofnun tekur upp rafræna undirritun

Með rafrænni undirritun verður afgreiðsla erinda skilvirkari auk þess sem pappír og póstburðargjöld sparast.

20.2.2015

Sem hluti af upplýsinga- og umhverfisstefnu Lyfjastofnunar hefur stofnunin að undanförnu undirbúið notkun rafrænna undirskrifta á skjöl í stað undirritaðra bréfa við afgreiðslu erinda sem berast stofnuninni.  Fyrst í stað mega viðskiptavinir stofnunarinnar eiga von á rafrænt undirrituðum svörum við erindum frá stofnuninni til jafns við undirrituð bréf í bréfapósti.

Þegar Lyfjastofnun sendir frá sér rafrænt undirritað skjal eru undirskriftirnar fullgildar með rafrænum skilríkjum frá Auðkenni hf. sem eru staðfest af Íslandsrót fjármála- og efnahagsráðuneytis.  Rafrænar undirritanir með fullgildum rafrænum skilríkjum eru samkvæmt lögum jafngildar eiginhandar undirskrift.

Þegar skjal hefur verið undirritað rafrænt er undirritunin orðin órjúfanlegur hluti þess og ekki er hægt að breyta skjalinu án þess að undirritunin falli úr gildi og þar með lögmæti skjalsins.

Hægt er að lesa nánar um eðli rafrænna undirskrifta á vef Neytendastofu.
Til baka Senda grein