Fréttir

Nitroglycerin DAK tungurótartöflur – Tóm lyfjaglös í umferð

21.10.2014

Lyfjastofnun hafa borist upplýsingar um að fundist hafi í lyfjabúðum einstaka tóm, óopnuð lyfjaglös af Nitroglycerin DAK tungurótartöflum frá Takeda Pharma. Það er því viss hætta á að umbúðir taflnanna hafi verið tómar þegar þær voru seldar úr lyfjabúð. Þetta á við um báða styrkleika (0,25 mg og 0,5 mg) og báðar pakkningastærðir taflnanna (25 töflur og 100 töflur).
 

Lyfjastofnun hvetur alla sem keypt hafa ofangreint lyf til að rannsaka hvort óopnuð glös af Nitroglycerin DAK tungurótartöflum innihaldi lyf. Ef lyfjaglasið var tómt þegar það var afhent í lyfjabúðinni er hægt að skila umbúðunum til lyfjabúðarinnar og fá nýtt lyf. Þessar upplýsingar eru birtar fyrir þá sem hafa keypt Nitroglycerin DAK en ekki enn tekið það í notkun.

Lyfjastofnun vekur athygli á því að Nitroglycerin DAK tungurótartöflur eru oft í sjúkrakössum og jafnan í lyfjakistum skipa og flugvéla.

Ekkert bendir til galla í töflunum sjálfum sem pakkaðar eru í ofangreindar umbúðir. Aðeins er varað við því að tómar pakkningar gætu verið í umferð.

Að öðru leyti er vísað til upplýsinga á heimasíðu Vistor á Íslandi um þennan pökkunargalla.

Um Nitroglycerin DAK tungurótartöflur:

Nitroglycerin DAK tungurótartöflur frá Takeda Pharma eru lausasölulyf sem ætlaðar eru til að meðhöndla eða fyrirbyggja hjartaöng.

Takeda Pharma framleiðir Nitroglycerin DAK en Vistor markaðssetur lyfið á Íslandi.

Nánari upplýsingar: www.vistor.is

Til baka Senda grein