Fréttir

Tilkynning vegna tómra pakkninga af Nitroglycerin DAK 0,5 mg töflum

17.10.2014

Í lyfjabúðum hafa fundist tómar pakkningar af Nitroglycerin DAK 0,5 mg tungurótartöflum og dæmi eru um að sjúklingar hafi fengið tóm glös í hendurnar. Um er að ræða pakkningar sem innihalda 25 tungurótartöflur. Gallinn er rakinn til mistaka við pökkun lyfsins hjá framleiðanda þess. 
  
Vistor óskar eftir að lyfjabúðir og sjúklingar skoði pakkningar sínar af Nitroglycerin DAK 0,5 mg tungurótartöflum í 25 töflu pakkningum til að ganga úr skugga um að óopnaðar pakkningar séu ekki tómar. Lyfið gæti einnig verið í sjúkrakössum, skipskistum og í neyðarkössum flugvéla.
   
Lyfið er í litlum, brúnum lyfjaglösum með hvítum skrúftappa. Lyfjaglösunum er pakkað í hvítan kassa. Tómu glösin sem fundist hafa eru úr tveimur lotum (11010298 og 10975759) af lyfinu en ekki er ennþá ljóst hvort gallinn takmarkast við þessar tvær lotur. Þess vegna er mikilvægt að lyfjabúðir og sjúklingar kanni hvort óopnuð lyfjaglös séu tóm. Ef sjúklingar hafa í fórum sínum óopnað en tómt lyfjaglas eru þeir beðnir að skila því til lyfjabúðarinnar, sem lætur þeim í té nýtt glas. Pökkunargallinn hefur engin áhrif á verkun taflanna.
  
Nitroglycerin DAK er notað til að meðhöndla og hindra hjartaöng.
  
Takeda framleiðir Nitroglycerin DAK en Vistor markaðssetur lyfið á Íslandi.
   
Nánari upplýsingar: www.vistor.is
Til baka Senda grein