Fréttir

Ný lyf á markað 1. október 2014

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. október 2014

3.10.2014

Brintellix, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur vortioxetín hýdróbrómíð sem svarar til 5 mg, 10 mg, 15 mg eða 20 mg af vortioxetíni. Lyfið er ætlað til meðferðar á alvarlegum þunglyndisköstum hjá fullorðnum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til þess að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila (merkt svarta þvíhyrningnum). Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Eplerenon Bluefish, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 25 mg eða 50 mg af eplerenoni. Lyfið er ætlað til viðbótar hefðbundinni meðferð, þ.m.t. beta-blokkum, til að draga úr hjarta- og æðasjúkdómum, og dauðsföllum af þeirra völdum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Erivedge, hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur 150 mg af vismodegibi. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósa. Lyfið er ætlað til meðhöndlunar fullorðinna sjúklinga með grunnfrumukrabbamein (basal cell carcinoma) með einkennum og meinvörpum þar sem skurðaðgerð eða geislameðferð eiga ekki við. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og markaðssetning á Íslandi er háð því að Lyfjastofnun hafi staðfest að sérstök skilyrði er varða öryggi og verkun við notkun lyfsins séu uppfyllt. Lyf er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila (merkt svarta þvíhyrningnum). Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf.

Gliclazid LYFIS, tafla með breyttan losunarhraða. Hver tafla inniheldur 30 mg af gliclazidi. Lyfið er ætlað við insúlínóháðri sykursýki (gerð 2) hjá fullorðnum, þegar breytt mataræði, hreyfing og þyngdartap eitt og sér nægir ekki til þess að koma á blóðsykursjafnvægi að nýju. Lyfið er lyfseðilsskylt.

IZBA, augndropar, lausn. Hver ml af lausn inniheldur 30 míkrógrömm af travóprosti. Lyfið er ætlað til að lækka augnþrýsting hjá fullorðnum sjúklingum með háan augnþrýsting eða gleiðhornsgláku. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Modafinil Bluefish, töflur. Hver tafla inniheldur 100 mg af modafinili. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósa. Lyfið er ætlað fyrir fullorðna til meðferðar á óhóflegri syfju í tengslum við drómasýki, (narcolepsy) með eða án máttleysiskasta (cataplexy). Lyfið er lyfseðilsskylt.

Oxikodon Depot Actavis, forðatöflur. Hver tafla inniheldur 5 mg, 10 mg, 20 mg, 40 mg eða 80 mg af af oxýkódoni. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósa. Lyfið er ætlað við slæmum verkjum sem aðeins er hægt að meðhöndla á fullnægjandi hátt með ópíóíðverkjalyfjum. Lyfið er eftirritunarskylt.

Eryseng Parvo, stungulyf, dreifa. Lyfið er ætlað svínum. Hver 2 ml skammtur inniheldur:

Virk innihaldsefni: Óvirkjuð svína-parvóveira, stofn NADL-2, RP> 1,15 *, óvirkjuð Erysipelothrix rhusiopathiae, stofn R32E11,  ELISA > 3,34 IE50 % **

* RP (relative potency) (ELISA)

** IE50% „inhibition ELISA - 50%

Ónæmisglæðar: Álhýdroxíð 5,29 mg (ál), DEAE-Dextran og Ginseng

Lyfið er ætlað til virkrar ónæmingaraðgerðar hjá gyltum til að vernda afkvæmin fyrir sýkingu yfir fylgju af völdum svína-parvóveiru og til virkrar ónæmingaraðgerðar hjá göltum og gyltum til að draga úr einkennum rauðsýki (swine erysipelas) (sárum á húð og hita) af völdum Erysipelothrix rhusiopathiae, sermisgerð 1 og sermisgerð 2.

Sjá lista

Til baka Senda grein