Fréttir

Svar Lyfjastofnunar við grein: „Banki opnar apótek“

Morgunblaðið birti grein eftir Hauk Ingason, lyfsöluleyfishafa í Garðs Apóteki, 27. september sl. undir fyrirsögninni „Banki opnar apótek“.

1.10.2014

Í greininni lætur höfundur að því liggja að Lyfjastofnun sé í aðstöðu til að hafa áhrif á hverjir opni apótek með vísan til samkeppnissjónarmiða og geti hindrað að rekstrarleyfishafar með ótrygga fjárhagsstöðu opni apótek.

Lyfjastofnun ber að gefa út lyfsöluleyfi og rekstrarleyfi, sbr. 20. og 21. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, með síðari breytingum. Mat á umsóknum um lyfsöluleyfi er lögbundið og skal þar tekið mið af faglegum þáttum, þ.e. menntun og starfsreynslu umsækjanda. Þá skal húsnæði, búnaður og starfslið uppfylla kröfur Lyfjastofnunar, sbr. ákvæði þar um í reglugerð nr. 426/1997 um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir. Forsenda fyrir veitingu rekstrarleyfis er að lyfsöluleyfi liggi fyrir. Leyfishafi rekstrarleyfis er ásamt lyfsöluleyfishafa ábyrgur fyrir því að farið sé að lyfjalögum. Lyfjastofnun er heimilt að svipta leyfishafa rekstrarleyfi brjóti hann gegn ákvæðum lyfjalaga. Í lyfjalögum er trygg fjárhagsstaða umsækjanda hvorki sett sem skilyrði fyrir veitingu lyfsöluleyfis né rekstrarleyfis.

Lyfjastofnun sendir umsóknir um ný lyfsöluleyfi til umsagnar viðkomandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði 3. mgr. 20. gr. lyfjalaga. Við mat á umsókn skal m.a. stuðst við íbúafjölda að baki lyfjabúðinni og fjarlægð hennar frá næstu lyfjabúð. Leggist umsagnaraðili gegn veitingu leyfis er Lyfjastofnun heimilt að hafna umsókninni.

Hvað varðar samkeppni og viðskiptahætti á lyfjamarkaði má vekja athygli á Samkeppniseftirlitinu, sem starfar eftir samkeppnislögum, nr. 44/2005 og er hlutverk þess skv. 8. gr. laganna m.a. að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja. Lyfjabúðir virðast ekki undanskyldar því ákvæði.

Tekið skal fram að velferðarráðuneyti hefur ekki aðkomu að því að veita leyfi fyrir opnun nýs apóteks eins og ranglega er staðhæft í umræddri grein.

Til baka Senda grein