Fréttir

Eftirlitsskyldur Lyfjastofnunar

Svar Lyfjastofnunar við grein Ólafs Adolfssonar lyfsöluleyfishafa, Apóteki Vesturlands, „Er meira eftirlit betra eftirlit?“ sem birtist í Tímariti um lyfjafræði, 1. tölublaði 2014.

23.9.2014

Eftirlitsskyldur Lyfjastofnunar: Eftirritunarskyldir lyfseðlar

Ólafur Adolfsson lyfsöluleyfishafi, Apóteki Vesturlands, birti greinina „Er meira eftirlit betra eftirlit?“ í Tímariti um lyfjafræði, 1. tölublaði 2014. Þar fjallar hann annars vegar um afleiðingar þess fyrir starfsfólk lyfjabúða og aðra að tramadol var gert eftirritunarskylt í byrjun árs 2013, og hins vegar um eftirlit Lyfjastofnunar með eftirritunarskyldum lyfseðlum og fjölgun eftirritunarskyldra lyfseðla samfara því að tramadol var gert eftirritunarskylt. Það er mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem láta sig lyfjamál varða fylgist með starfsemi Lyfjastofnunar og gagnrýni starfsemi hennar, en einnig er mikilvægt að rétt sé farið með staðreyndir þegar gagnrýni er höfð í frammi. Þess vegna er stofnuninni ljúft og skylt að leiðrétta það sem fram kemur í grein Ólafs um vinnu vegna eftirlits með eftirritunarskyldum lyfseðlum og ræða tillögur hans um bætt eftirlit á þessu sviði.

Frumrit eftirritunarskyldra lyfseðla skulu send Lyfjastofnun skv. 22. gr. reglugerðar nr. 91/2001 um afgreiðslu lyfseðla, áritun og afhendingu lyfja. Það er ekki að ástæðulausu að litið er sérstaklega eftir tilteknum ávana- og fíknilyfjum þar eð þau vegna eiginleika sinna geta haft í för með sér sérstaka hættu á misnotkun. Eftirlit með ávísun, afgreiðslu og afhendingu þeirra gefur heilbrigðisyfirvöldum tæki til að grípa inn í ef þörf þykir. 

Á árinu 2013 gerði Lyfjastofnun athugasemdir við afgreiðslu 156 eftirritunarskyldra lyfseðla. Athugasemdirnar voru meðal annars þær að of mikið magn lyfja var afgreitt miðað við ávísun læknis, að lyfseðli var breytt án samráðs við lækni og að ekki var kvittað fyrir móttöku lyfs. Eftirfylgni Lyfjastofnunar með athugasemdum vegna afgreiðslu lyfseðlanna hefur haft þau áhrif að vinnubrögð í lyfjabúðum hafa batnað að því marki að athugasemdum hefur fækkað úr 13 að meðaltali á mánuði árið 2013 í tæplega 7 að meðaltali á fyrstu sex mánuðum ársins 2014. Mikilvægt er að starfsfólk lyfjabúða gæti vel að réttri afgreiðslu meðan á henni stendur svo ekki sé þörf á að yfirfara lyfseðlana um hver mánaðarmót. Það er á ábyrgð lyfsöluleyfishafa í hverri lyfjabúð að hvetja starfsfólk til árvekni við afgreiðslu og afhendingu lyfja.

Í grein sinni segir Ólafur að hann hafi fengið upplýsingar um það hjá Lyfjastofnun að tveir lyfjafræðingar vinni við það í fullu starfi að yfirfara eftirritunarskylda lyfseðla frá apótekum landsins. Rétt er að tveir starfsmenn koma að eftirlitinu, einn lyfjafræðingur sem ver um hálfum til einum degi á mánuði við eftirlitið, og einn lyfjatæknir sem ver um 80 klst. á mánuði í eftirlit og frágang lyfseðlanna.

Starfsaðferðir Lyfjastofnunar eru stöðugt í endurskoðun. Í samstarfi við starfsfólk lyfjabúða hefur góður árangur náðst við að bæta afgreiðslu og afhendingu á eftirritunarskyldum lyfseðlum og mun stofnunin halda áfram að minna starfsfólk lyfjabúða á að sérstakrar aðgæslu er þörf þegar eftirritunarskyld lyf eru afgreidd. Rafræn skráning opnar vissulega ný tækifæri til að líta eftir afgreiðslu og afhendingu lyfja eins og Ólafur bendir á og mun Lyfjastofnun skoða með hvaða hætti má nýta þau í framtíðinni.

F.h. Lyfjastofnunar,

Sigríður Ólafsdóttir, sviðsstjóri eftirlitssviðs

Til baka Senda grein