Fréttir


Fréttir

Fjöllanda pakkningar lyfja - fleiri lyf á markað.

Fjöllanda pakkningar draga úr hættu á tímabundnum lyfjaskorti.

24.2.2014

Um langt árabil hefur Lyfjastofnun beitt sér fyrir því og hvatt eindregið til að lyfjafyrirtæki framleiði fjöllanda pakkningar lyfja, þ.e. pakkningar sem eru með áletrunum og fylgiseðli á tveimur eða fleiri tungumálum. Slíkt auðveldar til mikilla muna markaðssetningu á litlum markaðssvæðum á borð við Ísland og dregur úr framleiðslukostnaði fyrir slíka markaði. Oft er um að ræða pakkningar fyrir Ísland og eitt eða fleiri Norðurlandanna.
 

Lyfjastofnun hefur í samvinnu við yfirvöld lyfjamála í öðrum EES ríkjum beitt sér fyrir því að kröfur um áletranir á umbúðum lyfja hafa verið minnkaðar, án þess þó að dregið hafi verið úr öryggi. Minni áletranir auðvelda framleiðslu fjöllanda pakkninga. Þessi sjónarmið Lyfjastofnunar hafa fengið góðan hljómgrunn og framgang innan EES og lyfjaiðnaðurinn hefur sýnt þessu mikinn áhuga.

Einn angi þess starfs sem fram fer um þessi mál hjá Lyfjastofnun birtist í síðustu viku þegar gefnar voru út leiðbeiningar um norrænar lyfjapakkningar. Leiðbeiningarnar eru árangur mikillar og góðrar samvinnu lyfjastofnana á Norðurlöndunum enda má segja að hvert um sig séu Norðurlöndin lítill markaður, en sameiginlega, sem fimm landa heild, horfi málið öðruvísi við. Lyfjastofnun væntir þess að leiðbeiningarnar muni gera lyfjafyrirtækjum enn auðveldar um vik að markaðssetja lyf sín á Íslandi. Leiðbeiningarnar hafa nú þegar verið kynntar á ráðstefnu í Svíþjóð og gert er ráð fyrir svipaðri kynningu í Danmörku í mars, auk þess sem Lyfjastofnun mun halda kynningu um þessi mál fyrir íslensk lyfjafyrirtæki. Gert er ráð fyrir að sú kynning verði einnig í mars. Lyfjastofnanir Norðurlandanna fyrirhuga að halda áfram á þessari braut samræmingar og einföldunar og munu birta uppfærðar leiðbeiningar eftir því sem efni gefst til.

Fyrrnefndar leiðbeiningar um norrænar lyfjapakkningar eru sérlega ánægjulegur áfangi fyrir Lyfjastofnun, því frumkvæði að þessari vinnu kom frá stofnuninni. Lyfjastofnun hefur, rétt eins og lyfjastofnanir hinna Norðurlandanna tekið virkan þátt í samstarfinu og var raunar í forystu fyrir því framan af.

Lyfjastofnun hvetur lyfjaframleiðendur til að nýta sér þau fjölmörgu tækifæri sem standa til boða til að framleiða fjöllanda lyfjapakkningar, t.d. sameiginlegar pakkningar fyrir öll Norðurlöndin.

Til baka Senda grein