Fréttir


Fréttir

Ólögleg verslun með lyf á netinu færist í vöxt

Framleiðsla og sala ólöglegra lyfja er arðbær en glæpsamleg. Alþjóðalögreglan Interpol hefur staðið fyrir aðgerðum til að sporna við ólöglegri lyfjasölu á netinu undir nafniu “Operation Pangea”.

20.12.2012

Ólögleg netverslun með lyf hefur aukist um allan heim. Að framleiða og selja ólögleg lyf er arðbært en glæpsamlegt athæfi. Heilsu og lífi neytenda er stefnt í hættu. Rannsóknir á lyfjum sem seld eru á netinu hafa sýnt að virkt innihaldsefni er allt frá því að vera ekkert í það að vera allt annað en tilgreint er á umbúðum.
 

Samkvæmt skýrslu IPN (International Policy Network) deyja yfir 700 þúsund manns á ári hverju af völdum falsaðra berkla- og malaríulyfja.

Líkur eru á því að meira en helmingur þeirra lyfja sem boðin eru á netinu séu fölsuð. Í þróunarlöndum hagnýta lyfjafalsarar sér þörfina fyrir lífsnauðsynleg lyf s.s. lyf við malaríu og eyðni. Markaður með fölsuð lyf nær nú langt út fyrir svokölluð lífsstílslyf. Fölsuð krabbameinslyf, bóluefni og inflúensulyf eru meðal þeirra lyfja sem fölsuð eru.

Alþjóðalögreglan Interpol hefur staðið fyrir aðgerðum til að sporna við ólöglegri lyfjasölu á netinu og lyfjafölsunum frá árinu 2008 undir heitinu “Operation Pangea”. Með hverju ári fjölgar þeim löndum sem taka þátt í aðgerðinni. Ísland tók fyrst þátt í Pangea III í október 2010. Í Pangea V, sem gerð var í október s.l voru þátttökulöndin 100.

Í Pangea V aðgerðinni var yfir 18 þúsund vefsíðum lokað og lyf að andvirði 10,5 milljónum bandaríkjadala voru gerð upptæk.

Á vef Interpol eru viðtöl við fórnarlömb lyfjafalsara.

Lyfjastofnun vil vekja athygli á að langflestar sölusíður með lyf á netinu:

  • starfa ólöglega
  • selja fölsuð lyf
  • selja lyfseðilsskyld lyf án lyfseðils
  • hafa ekki starfandi lyfjafræðing

Lyfjastofnun varar við lyfjakaupum á netinu

 

Til baka Senda grein