Fréttir


Fréttir

Lyf sem innihalda tramadol verða eftirritunarskyld.

Vegna stöðugt vaxandi notkunar lyfja sem innihalda tramadol undanfarin ár og ábendinga um mögulega misnotkun þeirra, ákvað Lyfjastofnun að kanna hvort ástæða væri til að gera lyfin eftirritunarskyld.

7.12.2012

Vegna stöðugt vaxandi notkunar lyfja sem innihalda tramadol undanfarin ár og ábendinga um mögulega misnotkun þeirra, ákvað Lyfjastofnun að kanna hvort ástæða væri til að gera lyfin eftirritunarskyld. Snemma árs leitaði Lyfjastofnun því umsagnar Embættis landlæknis, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Einnig var leitað umsagnar lyfjanefndar Lyfjastofnunar. Þá var markaðsleyfishöfum lyfjanna sem um ræðir gefið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi eftirritunarskylduna. 
 
Að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga hefur Lyfjastofnun ákveðið að lyf sem innihalda tramadol verði eftirritunarskyld frá og með 1. janúar 2013. Ákvörðunin gildir um alla styrkleika og lyfjaform lyfja sem innihalda tramadol, eitt sér eða í blöndu með öðrum lyfjum.
 
Tramadol er verkjastillandi lyf af flokki ópíóíða. Lyf sem innihalda tramadol eru notuð við í meðallagi miklum til miklum verkjum. Almennt gildir að ekki skal nota þessi lyf lengur en brýna nauðsyn ber til og við langvarandi notkun skal viðhafa nákvæmt og reglulegt eftirlit með meðferðinni.
 
Eftirritunarskyldan mun ekki koma í veg fyrir að þeir sem þurfa á viðkomandi lyfjum að halda muni fá þau afgreidd enda er markmið eftirritunarskyldunnar fyrst og fremst að draga svo sem kostur er úr misnotkun þessara lyfja.
 
Eftirritunarskyldan hefur meðal annars í för með sér að ekki verður heimilt að ávísa lyfjunum með símalyfseðlum og myndsendum lyfseðlum. Hið sama á við um fjölnota lyfseðla nema um skömmtunarlyfseðla sé að ræða. 
 
Lyfjaheildsölum, lyfjabúðum og heilbrigðisstofnunum er bent á að frá og með næstu áramótum skal skráning og eftirlit vegna tramadols, sem og afgreiðsla lyfseðla, vera með sama hætti og fyrir önnur eftirritunarskyld lyf. 
 
Fjölnota lyfseðla, sem gefnir eru út fyrir 1. janúar 2013, má afgreiða einu sinni eftir næstu áramót. Að þeirri afgreiðslu lokinni falla þeir úr gildi enda ekki heimilt að ávísa eftirritunarskyldum lyfjum með fjölnota lyfseðlum.
Til baka Senda grein