Fréttir

Anervan hættir

Lyfjastofnun Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að hættan á alvarlegum aukaverkunum er meiri en ávinningurinn af notkun lyfja sem innihalda mepróbamat.

17.9.2012

Lyfjastofnun Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að hættan á alvarlegum aukaverkunum er meiri en ávinningurinn af notkun lyfja sem innihalda mepróbamat. Lyfið Anervan inniheldur 100 mg mepróbamat og verður tekið af markaði á Íslandi eigi síðar en í júní 2013. Nauðsynlegt er fyrir lækna og sjúklinga að bregðast við þessu sem fyrst.
 

Niðurstaða Lyfjastofnunar Evrópu byggir á mati á fyrirliggjandi gögnum um áhættu og ávinning af notkun mepróbamats. Lítill munur er á venjulegum skömmtum og ofskömmtum og eykur það hættuna á alvarlegum aukaverkunum, jafnvel banvænum. Einnig geta sjúklingar orðið háðir lyfinu og getur það leitt til alvarlegra aukaverkana ef meðferð er hætt skyndilega eftir notkun í langan tíma.

Anervan inniheldur mepróbamat auk þriggja annarra virkra efna. Það er notað til meðferðar á mígreniköstum. Til þess að læknar og sjúklingar hafi nægan tíma til að finna önnur meðferðarúrræði er gert ráð fyrir að hægt verði að fá Anervan fram til júní 2013.

Ráðleggingar til lækna:

  • Ekki skal ávísa Anervan fyrir nýja sjúklinga.
  • Ræða skal aðra meðferðarmöguleika við sjúklinga sem þegar taka lyfið.
  • Upplýsa skal sjúklinga um að meðferð skuli ekki hætt skyndilega þar sem það getur leitt til verulegra fráhvarfseinkenna.
  • Tilkynna skal aukaverkanir til Lyfjastofnunar, sjá www.lyfjastofnun.is

Ráðleggingar til sjúklinga:

  • Hafið samband við lækninn til að ræða breytta meðferð. Nota má Anervan eins og venjulega þangað til.
  • Ekki nota stærri skammta af Anervan en læknir hefur sagt fyrir um.
  • Hafið samband við lækni eða lyfjafræðing ef spurningar vakna um Anervan.

Sjá spurningar og svör á vefsíðu Lyfjastofnunar Evrópu og frétt Lyfjastofnunar Evrópu um málið.

Til baka Senda grein