Lyf án markaðsleyfis

Upplýsingar um lyf án markaðsleyfis

Lyfjastofnun hefur ekki yfirfarið gögn fyrir lyf sem ekki hafa markaðsleyfi á Íslandi og hefur ekki eftirlit með þeim. Notkun þessara lyfja er á ábyrgð þeirra lækna/dýralækna sem ávísa þeim. Lyfjastofnun hefur ekki samþykkt upplýsingar um þessi lyf og því eru engar upplýsingar um þau birtar á heimasíðu stofnunarinnar.

Hér eru teknir saman nokkrir tenglar þar sem leita má að upplýsingum um lyf sem ekki eru skráð á Íslandi en eru ef til vill skráð í nágrannalöndum okkar:

Bretland

Upplýsingar um lyf sem skráð eru í Bretlandi (samantektir á eiginleikum lyfjanna (SmPC) og fylgiseðlar). Lyfjafyrirtækin sjá um þessa síðu.

Danmörk

Upplýsingar um lyf sem skráð eru í Danmörku (SmPC) hjá dönsku lyfjastofnuninni.

Noregur

Upplýsingar um lyf sem skráð eru í Noregi (SmPC) hjá norsku lyfjastofnuninni.

Svíþjóð

Upplýsingar um lyf sem skráð eru í Svíþjóð (SmPC og fylgiseðlar) hjá sænsku lyfjastofnuninni.

Undanþágulyfseðlar

Þegar nota þarf lyf sem ekki hafa markaðsleyfi og flytja þarf inn erlendis frá verður að sækja um það til Lyfjastofnunar á eyðublöðum sem fást hjá Lyfjastofnun eða með rafrænum hætti, sjá upplýsingar í frétt frá nóvember 2015.
 

EKKI skal fylla út undanþágubeiðni vegna forskriftarlyfja lækna, þ.e. lyfja sem framleidd eru í apótekum hérlendis að beiðni læknis.

EKKI skal fylla út undanþágubeiðni til þess að sækja um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í lyfjum sem hafa markaðsleyfi. Sækja skal um greiðsluþátttöku rafrænt samkvæmt leiðbeiningum Sjúkratrygginga.

EKKI skal fylla út undanþágubeiðni til þess að sækja um leyfi til notkunar lyfs sem eingöngu er skráð til nota fyrir sérfræðinga í ákveðnum greinum (Z-merkt lyf). Ákvörðun um takmörkun á ávísun lyfsins er tekin af Lyfjastofnun við skráningu lyfsins og þeir sérfræðingar sem leyfi hafa til ávísunar mega einir ávísa lyfinu. Það gera þeir á venjulegum lyfseðlum.

Allar leiðbeiningar um útfyllingu beiðni eru aftan á eyðublaðinu. Þó skal sérstaklega nefna þessi atriði:

  • mikilvægt er að rökstyðja af hverju sótt er um notkun umrædds lyfs og að þar komi fram af hverju ekki er hægt að nota lyf sem eru á markaði á Íslandi. Ef rökstuðningur er lítill eða enginn getur það leitt til tafa á afgreiðslu undanþágunnar eða höfnunar hennar.
  • ef óskað er eftir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands þarf að sækja um það rafrænt til Sjúkratrygginga. Reitur á vinstri helming eyðublaðsins er ekki lengur í gildi.

Var efnið hjálplegt? Nei