Merki Lyfjastofnunar

Lyfjanefnd varð til með lögum nr. 85/1976 og var arftaki lyfjaskrárnefndar. Árni Kristinsson læknir var fyrsti formaður nefndarinnar og að hans undirlagi gaf nefndin út upplýsingablað sem ætlað var læknum og nefnt „Lyfjafréttir“. Í Lyfjafréttum voru upplýsingar um lyf og fréttir af lyfjamálum og var þeim ætlað að vera mótvægi við upplýsingamiðlun lyfjafyrirtækja sem á þeim árum voru nánast ein um hituna í miðlun upplýsinga til lækna og lyfjafræðinga.

Björn G. Björnsson leikmyndateiknari tók að sér hönnun og umbrot Lyfjafrétta og teiknaði merki sem notað var sem auðkenni blaðsins. Merkið var upphaflega í mjög áberandi rauðgulum lit, sem ætlað var að fanga athygli viðtakandans. Stuttur texti og sláandi útlit varð til þess að blaðið var yfirleitt lesið en fór ekki beint í bréfakörfuna. Á árunum 1978-1982 komu út 19 tölublöð af Lyfjafréttum.

Merki Lyfjafrétta, vængjaður stafur í rauðgulum lit

Þegar Lyfjastofnun var komið á fót árið 2000 var merki Björns G. Björnssonar vakið til lífsins að nýju, sem merki hinnar nýju stofnunar, en í stað rauðgula litarins varð hlutlausari blár litur fyrir valinu. Merkið er ýmist notað blátt á ljósum grunni eða hvítt á dökkum grunni.

Fyrsta merki Lyfjastofnunar, vængjaður stafur í bláum lit með hvítan bakgrunn

Merkið er stílfærð útfærsla á tákni sem er meðal annars algengt meðal samtaka heilbrigðisstétta, þ.e. vængjaður stafur sem tveir snákar vefja sig um. Stafurinn er sproti Hermesar sem meðal Forn-Grikkja var sendiboði guðanna. Hermes var sonur Seifs og bar ýmis viðurnefni, t.d. hagsældarguð, hinn hagvaldi og guð viðskipta. Sproti Hermesar var máttugur eins og segir í Odysseifskviðu Hómers, í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar:

„Hinn kyllenski Hermes kallaði nú til sín vofur biðlanna, hann hélt á fögrum sprota úr gulli; með þeim sprota stingur hann mönnum svefnþorn, þeim er hann vill, og með hinum sama vekur hann þá er sofa.“

Á haustdögum 2007

Elín Þ. Theodórs og Jóhann M. Lenharðsson

Saga merkis Lyfjastofnunar byggist m.a. á upplýsingum frá Árna Kristinssyni og Birni G. Björnssyni.


Merki Lyfjastofnunar fékk yfirhalningu á vordögum 2016. Það var Tryggvi Tryggvason hönnuður sem gaf merkinu nútímalegra útlit. Merki Lyfjastofnunar í hárri upplausn má nálgast hér.

Var efnið hjálplegt? Nei