BEMA - Benchmarking of European Medicines Agencies

Forstöðumenn Lyfjastofnana á Evrópska efnahagssvæðinu ákváðu árið 2003 að stofnanir þeirra tækju þátt í samanburðarátaki, sem hæfist formlega í maí árið 2005, en héldi síðan áfram um ókomin ár. Fékk það heitið BEMA (Benchmarking of European Medicines Agencies) og er byggt á hugmyndafræði gæða- og árangursstjórnunar. Verkefninu er stjórnað af sérstökum stýrihópi á vegum forstöðumannanna, en umsjón með framkvæmd er í höndum gæðadeildar lyfjastofnunar Evrópu í London.

Markmiðið er að úr verði net fyrirmyndarstofnana á heimsvísu, sem vinna á samræmdan hátt. Hver stofnun gerir innri úttekt á eigin starfsemi, samkvæmt fyrirfram ákveðnum spurningalista, sem tekur til stjórnunar og stjórnskipulags, ásamt þeim þáttum sem einkenna starfsemi lyfjastofnana umfram aðrar opinberar stofnanir, s.s. markaðssetningu lyfja, eftirliti með lyfjum og lyfjaframleiðendum, lyfjagát og klínískum rannsóknum. Í kjölfarið eru svo ytri úttektir og lauk fyrstu hrinu slíkra úttekta í maí 2006. Fyrsta sjálfsmat vegna BEMA fór fram á Lyfjastofnun haustið 2004 og var stofnunin tekin út í nóvember 2005. Sjálfsmatið var síðan endurtekið 2008 ásamt ytri úttekt í mars 2009.

Niðurstöðum er svo safnað í gagnagrunn, sem er notaður í frekari innri úttektum stofnananna, þegar þær meta hvaða þáttum þær vilja breyta, svo og til samræmingar vegna ytri úttekta.
Var efnið hjálplegt? Nei