Umsókn um markaðsleyfi

 

Sjá einnig Notice to Applicants.

Breytingar á markaðsleyfum

Sækja þarf um eða tilkynna allar breytingar á lyfjum sem eru með markaðsleyfi skv. gildandi reglum, sjá Notice to Applicants.

Miðlægt markaðsleyfi (CP-leyfi)

Miðlægt ferli er notað þegar sótt er um markaðsleyfi fyrir allt EES-svæðið, t.d. fyrir líftæknilyf, lyf gegn tilteknum sjúkdómum og önnur ný lyf. Umsóknir eru sendar til Lyfjastofnunar Evrópu (EMA). Tvær vísindanefndir, önnur fyrir mannalyf, CHMP (Committee for Medicinal Products for Human Use), og hin fyrir dýralyf, CVMP (Committee for Medicinal Products for Veterinary Use), meta umsóknir. Hvert aðildarland tilnefnir einn sérfræðing í hvora nefnd og einn til vara. Að auki getur hvor nefnd valið allt að fimm sérfræðinga, til að ná yfir víðara þekkingarsvið. Fulltrúar tveggja landa úr viðkomandi nefnd eru valdir til að taka að sér að meta hverja umsókn fyrir sig og skrifa matsgerð (Rapporteur og Co-rapporteur). Aðrir sérfræðingar í nefndunum geta gert athugasemdir við matsgerðirnar. Nefndirnar skila síðan vísindalegu áliti á umsókninni sem er sent áfram til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem  gefur út markaðsleyfi. Markaðsleyfið gildir í öllum aðildarríkjum ESB. Ríki utan ESB, en innan EES, líkt og Ísland, hafa þrjátíu viðbótardaga til að gefa út samsvarandi markaðsleyfi.

Landsmarkaðsleyfi, gagnkvæm viðurkenning (mutual recognition procedure (MRP) eða decentralised procedure (DCP))

Umsækjendur geta valið aðildarland til að meta umsókn (umsjónarland, RMS) og önnur lönd þar sem sóst er eftir markaðsleyfi (þátttökulönd, CMS).

MR-ferill: Er notaður þegar markaðsleyfi hefur verið veitt fyrir lyf í einhverju EES-landi. Umsækjandi semur við það land sem veitt hefur markaðsleyfi fyrir lyfið um að skrifa matsgerð sem byggð er á umsóknargögnum, þ.e. að taka að sér að vera umsjónarland. Sú matsgerð er send ásamt umsóknargögnum til annarra landa sem markaðsleyfishafi óskar eftir að fá markaðsleyfi í. Umsóknir eru 90 daga í ferlinu, ef ekki kemur til ágreinings. Eftir að ferlinum lýkur hafa þátttökulönd 30 daga til að fara yfir þýðingar texta og gefa út markaðsleyfi í viðkomandi landi.

DC-ferill: Ef lyf hefur ekki fengið markaðsleyfi áður þá er gjarnan notaður svonefndur DC-ferill (Decentralised Procedure). Umsókn er þá send samtímis til þess lands sem skrifar matsgerð (umsjónarlands) og annarra þátttökulanda sem einnig taka þátt í matinu. Eftir að ferlinum lýkur hafa þátttökulönd 30 daga til að fara yfir þýðingar texta og gefa út markaðsleyfi í viðkomandi landi.

Ef þátttökuland vekur máls á ágreiningi er reynt að útkljá málin innan sérstakra nefnda, sem skipaðar eru fulltrúum lyfjastofnana innan EES, þ.e. CMDh/CMDv (Coordination Group for Mutual Recognition and Decentralised Procedure human/veterinarian).

Ef ekki tekst að leysa úr ágreiningi þar er málinu vísað til vísindanefnda Lyfjastofnunar Evrópu (EMA).

Landsmarkaðsleyfi - fyrir eitt land eingöngu

Landsmarkaðsleyfi, sem aðeins gilda fyrir Ísland eru veitt þegar umsækjandi sækir um leyfi fyrir nýjum styrkleika eða lyfjaformi lyfs sem áður hefur fengið landsmarkaðsleyfi. Þetta gildir einnig ef einungis er fyrirhugað að markaðssetja lyfið á Íslandi eða fyrirhugað er að fara í MR-feril í framhaldi (sjá hér að ofan).

Sérfræðingar Lyfjastofnunar meta gæði, öryggi og verkun lyfsins auk annarra þátta. Ef þessi atriði eru í lagi er veitt landsmarkaðsleyfi fyrir lyfið.


Var efnið hjálplegt? Nei