Flokkun lyfjaútibúa


Flokkun lyfjaútibúa

Lyfjaútibú 1

Í lyfjaútibúi 1 starfar lyfjafræðingur og um starfsemi þess fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 426/1997, um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir.

Lyfjaútibú 2

Leyfi til reksturs lyfjaútibús 2 er eingöngu veitt ef langt eða torsótt er í lyfjabúð og lyfjafræðingur fæst ekki til starfa.

Heimilt er í lyfjaútibúi 2 að afgreiða lyf gegn lyfseðli. Afgreiðslan skal vera í höndum lyfjatæknis eða þjálfaðs starfsmanns og skal vera í samræmi við ákvæði 67. gr. reglugerðar nr. 426/1997, um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir.

Heimilt er að afgreiða lausasölulyf í lyfjaútibúinu.

Lyfjaútibú 3

Í lyfjaútibúi 3 fer fram afhending lyfja sem afgreidd hafa verið frá lyfjabúð þaðan sem lyfjaútibúið er starfrækt. Þar er heimilt að afgreiða lausasölulyf, enda sé fyrir hendi nauðsynleg aðstaða og lyfjatæknir eða þjálfað starfsfólk sem annast afgreiðsluna.

Heimila má að í lyfjaútibúi 3 sé skilgreindur neyðarforði nauðsynlegra lyfja sem starfsmaður lyfjaútibúsins má afgreiða úr samkvæmt fyrirmælum lyfsöluleyfishafa og skriflegum reglum þar um.

Lyfjaútibú 4

Hér er um að ræða skilgreindan forða nauðsynlegra lyfja á vegum lyfjabúðar, þar sem langt er í lyfjabúð eða lyfjaútibú og illfært eða ófært getur orðið.

Afgreiðsla lyfja úr lyfjaútibúi

Þegar heimilt er í lyfjaútibúi að afgreiða lyf gegn lyfseðli, skal afgreiðsla ekki fara fram nema að undangengnu eftirliti lyfjafræðings.

Sé lyfjafræðingur ekki starfandi í lyfjaútibúi skal lyfjafræðingur í lyfjabúðinni, þaðan sem lyfjaútibúið er starfrækt, fara yfir lyfseðil og áletrunarmiða áður en lyf er afhent. Lyfseðill og áletrunarmiðar skulu sendir í lyfjabúðina með bréfsíma eða með sambærilegum hætti en starfsmaður lyfjaútibúsins skal áður hafa ritað inn á lyfseðilinn norrænt vörunúmer eða hliðstætt auðkenni þess lyfs sem hann hyggst afhenda gegn lyfseðlinum.

Halda skal skrá um afgreiðslu lyfja úr neyðarbirgðum í lyfjaútibúi 3 og um alla afgreiðslu úr lyfjaútibúi 4.

Auðkenni og merking lyfjaútibús

Lyfjaútibú 1 og 2 skulu greinilega auðkennd móðurapótekinu og þess skýrt getið að um sé að ræða lyfjaútibú. Hið sama á við um lyfjaútibú 3, fari þar fram afgreiðsla lausasölulyfja.

Merking lyfja

Lyf skulu auðkennd því lyfjaútibúi sem þau eru afgreidd frá.

Ábyrgð og eftirlit lyfsöluleyfishafa

Lyfsöluleyfishafi skal hafa reglubundið eftirlit með rekstri lyfjaútibús síns og ber hann alla ábyrgð á að þar sé farið að settum lögum og reglugerðum. Lyfsöluleyfishafi skal eigi sjaldnar en mánaðarlega yfirfara birgðir eftirritunarskyldra lyfja, hitastigsskráningu lyfjageymsla, lyfseðla og þrifaskema útibúsins og kvitta fyrir yfirferðinni.

Í lyfjaútibúi skal vera bók sem lyfsöluleyfishafi kvittar í hverju sinni að loknu eftirliti.


Var efnið hjálplegt? Nei