Innflutningur einstaklinga á lyfjum

Lög og reglugerðir

Eftirfarandi lög og reglugerðir gilda um innflutning einstaklinga á lyfjum.

Lög

Reglugerðir

Svör við algengum spurningum um innflutning einstaklinga á lyfjum

Um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota gilda ákvæði reglugerðar nr. 212/1998, um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota, með síðari breytingum

Innflutningur einstaklinga frá EES ríkjum

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 212/1998 mega einstaklingar hafa með sér í farangri eða fá send í pósti til landsins lyf til eigin nota sem svarar til 100 daga notkunar að hámarki. Innflutningurinn má þó ekki brjóta í bága við 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 212/1998, en greinarnar hafa að geyma sérákvæði um ávana- og fíkniefni, og vefjaaukandi stera og hliðstæð efni.

Einstaklingur sem hyggur á innflutning lyfja frá EES ríkjum til eigin nota verður að geta sýnt fram á að hann hafi þörf fyrir lyfin með vottorði, lyfseðli eða skriflegri yfirlýsingu frá lækni og að hann hafi aflað lyfjanna með lögmætum hætti.

Innflutningur einstaklinga frá ríkjum utan EES

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 212/1998 má einstaklingur hafa með sér í farangri lyf til eigin nota sem svarar til 100 daga notkunar að hámarki. Innflutningurinn má þó ekki brjóta í bága við 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 212/1998 en greinarnar hafa að geyma sérákvæði um ávana- og fíkniefni og vefjaaukandi stera og hliðstæð efni.  

Einstaklingur sem hyggur á innflutning lyfja frá ríkjum utan EES til eigin nota verður að geta sýnt fram á að hann hafi þörf fyrir lyfin með vottorði, lyfseðli eða skriflegri yfirlýsingu frá lækni og að hann hafi aflað lyfjanna með lögmætum hætti.

Innflutningur einstaklinga á lyfjum í pósti frá ríkjum utan EES til eigin nota er óheimill.

Undanþáguheimild

Samkvæmt 6. gr. a. reglugerðar nr. 212/1998, með síðari breytingum, er Lyfjastofnun heimilt að veita undanþágu frá 3. - 5. gr. reglugerðarinnar vegna sérstakra aðstæðna, þegar sýnt er fram á að heilsu eða lífi einstaklings sé verulega ógnað.

Sá sem óskar eftir undanþágu frá fyrrnefndum greinum reglugerðarinnar þarf að koma til Lyfjastofnunar vottorði frá lækni. Skal vottorðið sýna fram á með óvéfengjanlegum hætti að heilsu og lífi einstaklingsins sé verulega ógnað nema að fenginni undanþágunni.  Lyfjastofnun áskilur sér rétt til að afla álits sérfræðings eða innlendrar eða erlendrar stofnunar á því hvort vottorð læknisins sé óvéfengjanlegt. Lyfjastofnun veitir almennt ekki undanþágu frá reglugerðinni sé það lyf sem um ræðir fáanlegt í íslensku apóteki.

Lagatextar sem vitnað er í hér að ofan

3. gr. reglugerð nr. 212/1998  

Einstaklingur má hafa með sér til landsins eða flytja með pósti, frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, lyf til eigin nota í magni sem svarar til mest 100 daga notkunar.

4. gr. reglugerð nr. 212/1998

Einstaklingur má hafa með sér til landsins, frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, lyf til eigin nota í magni sem svarar til mest 100 daga notkunar.

Óheimilt er að flytja inn lyf með pósti frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

5. gr. reglugerð nr. 212/1998

Þegar um er að ræða lyf, sem falla undir ákvæði laga og reglugerða um ávana- og fíkniefni og talin eru á listum N-I, N-II, N-III og N–IV í alþjóðasamningi um ávana- og fíknilyf (Convention on Narcotic Drugs 1961) og á listum P-I, P-II og P-III í alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni (Convention on Psychotropic Substances 1971), sem Ísland er aðili að, gildir eftirfarandi um innflutning þeirra.

Einstaklingum, með búsetu í landi sem er aðili að Schengen-samningnum, er heimilt að flytja með sér lyf, sbr. 1. mgr., til eigin nota og ávísað hefur verið á lögmætan hátt til allt að 30 daga notkunar, skv. ákvæði 75. gr. Schengen-samningsins, sbr. einnig ákvæði gildandi reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

Sama gildir um einstaklinga með búsetu utan Schengen, nema þeim er einungis heimilt að flytja með sér lyf til 14 daga notkunar.

Óheimilt er að flytja inn með pósti lyf samkvæmt þessum ákvæðum.

6. gr. reglugerð nr. 212/1998

Óheimilt er að flytja inn í eigin farangri eða á annan hátt lyf af flokki vefaukandi stera (anabolica) og hliðstæðra efna samkvæmt c.-lið í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar, eða hormón heiladinguls og undirstúku (pituitary og hypothalamic), þ.e. vaxtarhormón og hliðstæð efni samkvæmt f.-lið í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar yfir lyf sem bönnuð eru í íþróttum, umfram það magn sem einstaklingur þarf til mest 30 daga notkunar.

Tollayfirvöld geta krafist þess að einstaklingur sem hefur í fórum sínum lyf samkvæmt 1. mgr. færi fullnægjandi sönnur á, að lyfin séu honum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er t.d. með vottorði læknis.

6. gr. a. reglugerð nr. 212/1998

Undanþágur.

Lyfjastofnun er heimilt að veita undanþágur frá ákvæðum 3. - 5. gr., vegna sérstakra aðstæðna, þegar sýnt er fram á að heilsu eða lífi einstaklings sé verulega ógnað.

EES ríki

Aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eru öll 28 aðildarríki Evrópusambandsins (Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Króatía, Kýpur, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland) og þrjú EFTA ríki (Ísland, Noregur og Liechtenstein).

Schengen ríki

Austurríki, Belgía, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ísland, Ítalía, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Pólland, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

Var efnið hjálplegt? Nei