Iðnaðarhampur

Öll varsla og meðferð kannabisplöntunnar og afurða sem vinna má úr henni er óheimil hér á landi. Lyfjastofnun er heimilt að veita undanþágu frá þessu banni í sérstökum tilvikum. Hefur Lyfjastofnun m.a. heimild til að veita slíka undanþágu til innflutnings á fræjum til ræktunar svokallaðs iðnaðarhamps hér á landi.

Í samræmi við 9. gr. a reglugerðar um ávana- og fíkniefni, nr. 233/2001, með síðari breytingum, þarf umsækjandi að sýna fram á eftirfarandi svo Lyfjastofnun sé heimilt að veita undanþágu:

  • Að styrkleiki tetrahydrocannabinóls (THC) í innfluttri vöru sé að hámarki 0,20%
  • Að yrki iðnaðarhamps sem sótt er um undanþágu fyrir sé á skrá Evrópusambandsins yfir samþykkt yrki iðnaðarhamps
  • Gögn sem sýna fram á samræmi innflutnings við tilskipun 2002/57/EB um markaðssetningu olíu- og trefjaplöntufræs

Athygli er vakin á því að innflutningur á sáðvöru, þ.m.t. innflutningur á fræjum til iðnaðarhampsræktunar, er tilkynningarskyldur til Matvælastofnunar. Undanþága Lyfjastofnunar frá ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni til innflutnings á fræjum til iðnaðarhampsræktunar er viðbótarkrafa við almennar reglur sem gilda um innflutning á fræjum til landsins.

Til þess að Lyfjastofnun geti tekið umsókn um undanþágu samkvæmt framansögðu til meðferðar þarf að liggja fyrir afgreidd tilkynning um innflutning á fræjum til iðnaðarhampsræktunar frá Matvælastofnun. Slík afgreiðsla er eitt af þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerð nr. 233/2001 (þ.e. „gögn sem sýna fram á samræmi innflutnings við tilskipun 2002/57/EB sbr. reglugerð um eftirlit með sáðvöru“). Þá skulu fylgja gögn sem sýna fram á, að þau fræ sem flytja skal til landsins séu af yrki iðnaðarhamps sem er á skrá Evrópusambandsins yfir samþykkt yrki iðnaðarhamps ásamt gögnum sem staðfesta að styrkleiki THC í innfluttri vöru sé að hámarki 0,20%. Slík gögn skulu innihalda upplýsingar á einhverju eftirfarandi tungumála; íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku.

Hér má finna eyðublað vegna undanþáguumsóknar til Lyfjastofnunar um innflutning á fræjum til iðnaðarhampsræktunar.

Þá er athygli vakin á því að framleiðsla á virkum efnum til lyfjaframleiðslu (e. API manufacture) er tilkynningaskyld starfsemi sbr. 34. gr. a lyfjalaga. Er jafnframt vakin athygli á því að lyfjaframleiðsla er leyfisskyld starfsemi sbr. 34. gr. lyfjalaga. Afurðir iðnaðarhamps sem nota má til lyfjaframleiðslu teljast til virkra lyfjaefna.


Var efnið hjálplegt? Nei